Enski boltinn

Barkley bað Henderson afsökunar á tæklingunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ross Barkley, miðjumaður Everton, gerði sig sekan um mjög ljóta tæklingu í Bítlaborgarslagnum á móti Liverpool en slapp af einhverjum ástæðum með gult spjald.

Flestir vildu fá rautt spjald á svona hættulega tæklingu en Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, slapp sem betur fer við alvarleg meiðsli.

Stjórarnir Jürgen Klopp hjá Liverpool og Ronald Koeman hjá Everton, voru báðir á því að Ross Barkley hafi verið heppinn að fá ekki rauða spjaldið. „Kannski var Ross virkilega heppinn en Hendo var virkilega heppinn,“ sagði Klopp.

Jordan Henderson var ekki að væla undan Ross Barkley eftir leikinn en sagði að miðjumaður Everton hafi beðið hann afsökunar á tæklingunni eftir leikinn.

„Hann kom frekar seint inn í þessa tæklingu en ég þekki Ross vel og þetta er góður strákur,“ sagði Jordan Henderson eftir leikinn. Sigurmarkið hjá Sadio Mane í uppbótartíma átti örugglega sinn þátt í því að Henderson var kátur eftir leikinn þrátt fyrir að vera hársbreidd frá því að meiðast mjög illa.

„Sem betur fer er ég í fínu lagi. Hann misreiknaði sig og hann baðst afsökunar á því eftir leikinn. Þetta var derby-leikur og þá skiptir engu máli inn á vellinum hvort menn eru vinir eða ekki,“ sagði Jordan Henderson.

Liverpool vann leikinn 1-0, komst upp í annað sætið og minnkaði forskot Chelsea í sex stig.



Viðbrögð Jürgen Klopp, knattspyrnustjóra Liverpool, við tæklingunni. Jordan Henderson liggur sárkvalinn í grasinu.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×