Fótbolti

Þorði ekki inn í klefa eftir að hann gerði þetta við þjálfarann sinn | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk mikið á þegar Davie Selke var að reyna að sturta bjór yfir þjálfarann sinn.
Það gekk mikið á þegar Davie Selke var að reyna að sturta bjór yfir þjálfarann sinn. Vísir/Getty
Þetta var mjög góð helgi fyrir þýska fótboltafélagið RB Leipzig sem vann sér þá sæti í þýsku Bundesligunni í fyrsta sinn í sögu félagsins. Það var samt einn maður sem fór illa út úr fagnaðarlátunum eftir leikinn. 

Framherjinn Davie Selke átti fínasta tímabil með liðinu en þessi 21 árs strákur skoraði 10 mörk í 29 leikjum í deildinni. Selke ætlaði að vera sniðugur eftir leik og sturta úr bjórglasi yfir þjálfarann Ralf Rangnick.

Ralf Rangnick, sem er 57 ára og 36 árum eldri en Davie Selke, var ekki á því að láta Davie Selke sturta yfir sig og tók á rás.

Davie Selke gafst ekki upp og elti þjálfarann sinn um völlinn sem endaði með að Ralf Rangnick féll í grasið og Selke sturtaði yfir hann. Seinna kom í ljós að Ralf Rangnick hafði tognað aftan í læri á hlaupunum.

Davie Selke, skammaðist sín í viðtölum við þýska fjölmiðla og viðurkenndi að hann væri ekki spenntur fyrir því að hitta þjálfarann sinn.

„Þess vegna er ég að gefa svona mörg viðtöl. Ég þori ekki inn í klefa. Hann reyndi að stinga mig af sem var ekki góð hugmynd. Ég náði honum en svo gerðist eitthvað. Hann var ekki búinn að hita upp," sagði Davie Selke brosandi.

„Hann meiddi sig. Þetta var eitthvað meira en tognun og hann gat ekki fagnað með okkur," sagði aðstoðarþjálfarinn Achim Beierlorzer um afdrif hins óheppna Ralf Rangnick.

Það er hægt að sjá myndir af eltingarleiknum hér fyrir neðan.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×