Fótbolti

Svein­dís og Amanda áttu strembið Meistara­deildar­kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Amanda Andradóttir á ferðinni gegn Chelsea í kvöld.
Amanda Andradóttir á ferðinni gegn Chelsea í kvöld. Getty

Sveindís Jane Jónsdóttir og Amanda Andradóttir urðu báðar að sætta sig við tap í kvöld í Meistaradeild Evrópu í fótbolta, gegn ógnarsterkum mótherjum.

Sveindís var reyndar ekki í byrjunarliði Wolfsburg, sem tók á móti hinu sigursæla liði Lyon, og kom ekki inn á fyrr en að staðan var orðin 2-0 fyrir Lyon, og það urðu lokatölurnar. Sveindís lék frá 77. mínútu.

Miðvörðurinn Wendie Renard og hin bandaríska Lindsey Horan, sem Sveindís mætir í vináttulandsleikjum síðar í þessum mánuði, skoruðu mörk Lyon. Seinna markið kom úr víti snemma í seinni hálfleik.

Amanda var í byrjunarliði Twente sem tapaði á heimavelli gegn Chelsea, 3-1. Gestirnir frá Englandi komust í 2-0 á fyrstu átján mínútum leiksins og náðu 3-0 forskoti áður en Twente minnkaði muninn.

Fyrr í dag vann Real Madrid 4-0 sigur gegn Celtic í sama riðli og náð í sín fyrstu stig. Twente er einnig með þrjú stig en Celtic án stiga og Chelsea með sex stig.

Í A-riðli eru Roma og Lyon með sex stig hvort, efitr að Roma vann Galatasaray fyrr í dag, en Wolfsburg og Galatasaray án stiga. Sveindís og stöllur hennar eru því komnar í erfið mál en hafa fjóra leiki til stefnu, til að tryggja sér annað af tveimur efstu sætunum í riðlinum og þar með sæti í átta liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×