Innlent

Einangruð, alveg réttlaus og ótryggð í vinnu í íslenskri sveit

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Zsofía dvelur hjá góðviljaðri íslenskri konu þangað til hún fer til Ungverjalands í byrjun maí. Halldóra Sveinsdóttir hjá Bárunni stéttarfélagi segir mál eins og hennar snúin.
Zsofía dvelur hjá góðviljaðri íslenskri konu þangað til hún fer til Ungverjalands í byrjun maí. Halldóra Sveinsdóttir hjá Bárunni stéttarfélagi segir mál eins og hennar snúin. Fréttablaðið/Pjetur
Zsófía Sidlovits er rúmlega tvítug, hún er frá Ungverjalandi og er á heimleið eftir tæplega árs vinnu á sveitabæ á Suðurlandi. Hún fékk greiddar fjörutíu til sextíu þúsund krónur í laun á mánuði fyrir 10-12 tíma vinnu á dag.

Zsófía fékk engan ráðningarsamning gerðan við sig. „Ég var í raun ósýnileg á Íslandi allan þennan tíma. Réttlaus, ótryggð og einangruð.“

Hún greinir blaðamanni frá reynslu sinni í von um að greiða götu þess fólks sem kann að lenda i sömu aðstæðum og hún sjálf. Zsófía hefur fengið húsaskjól á höfuðborgarsvæðinu hjá góðviljaðri konu þangað til hún fer aftur til Ungverjalands.

Fegin að fá vinnu

Atvinnuna fékk hún í gegnum hóp á Facebook þar sem auglýst er eftir au-pair og vinnufólki á íslenska sveitabæi. Nánar tiltekið, hópnum Farm- and Aupair jobs in Iceland.

„Þar sem atvinnutækifæri eru fá fyrir ungt fólk í Ungverjalandi leita margir út fyrir landsteinana. Ungt fólk er fegið því að fá tækifæri til vinnu og  tilbúið til þess að leggja hart að sér,“ segir Zsófía. „Það gefur seint upp vonina lendi það í slæmum aðstæðum. Sjálf var ég í þeim sporum.“

Fékk ekki samning

Zsófía kom til landsins í júnímánuði í fyrra. Á sveitabænum eru kindur, kýr og hestar og mikill búskapur. Fjöldi vinnumanna aðstoðar hjónin á bænum við verkin.

Húsmóðirin á bænum hafði nýlega eignast tvíbura og átti fyrir þrjú börn. „Það kom í minn hlut í byrjun að þrífa, elda og hugsa um börnin,“ segir Zsófía. Hún segir langan tíma hafa farið í að þrífa húsið í byrjun, það hafi verið svo skítugt. Hún hafi sjálf boðist til að elda því húsmóðirin hafi ekki sýnt því áhuga.

„Ég furða mig á því hversu lág laun fyrir húsverk eru. Húsmóðirin sagði mér að þau væru lítils metin hér. Nánast einskis. En vinnan var mjög krefjandi.“

Eftir þrjá mánuði bað hún um samning. Hjónin á bænum sögðust myndu ráðast í gerð samnings um leið og tækifæri gæfist. „Þau báru hins vegar við annríki viku eftir viku og bættu á mig verkefnum. Ekkert varð af því að gera við mig samning. Þau voru alltaf upptekin.“

Eins og þriðja flokks borgari

Zsófía var beðin um að sinna verkum í fjósinu líka. Vinnutíminn lengdist og átti eftir að lengjast enn frekar. Hún vaknaði klukkan sjö og mjólkaði kýrnar klukkan hálf átta, sinnti ýmsum verkum, eldaði kvöldmat og mjólkaði aftur áður en hún fór að sofa.

Zsófía átti lausa stund á meðan hún borðaði hvern dag. „Ég gerði mér grein fyrir því að það var ekki rétt staðið að þessu. Yfir sumartímann voru Íslendingar að aðstoða þau en það kom líka erlent verkafólk en það stoppaði stutt,“ segir Zsófía og segir Íslendingana hafa notið allra réttinda og verið skráðir til vinnu öfugt við útlendingana.

Nú þegar hún veit að hún átti rétt á lágmarkslaunum að frádregnu fæði og húsnæði segist henni líða eins og þriðja flokks borgara. Með réttu hefðu húsráðendur átt að borga henni lágmarkslaun. Hún hefur orðið af mörg hundruð þúsundum króna í tekjur.



Halldóra Sveinsdóttir formaður Bárunnar, stéttarfélags. Fréttablaðið/AntonBrink
Tilfinningarnar eru blendnar.

„Mér leið vel á bænum. Ég sakna dýranna og tengdist börnunum. Þá átti ég alveg í ágætum samskiptum við húsráðendur þrátt fyrir að vera í þessari slæmu stöðu. Ég þorði ekki að fara því þá hræddist ég að ég yrði af þeim litlu tekjum sem ég hafði þó.“

Íslendingar hafa verið duglegir að stappa í hana stálinu, hvatt hana til þess að leita til verkalýðsfélags, jafnvel að kæra hjónin til lögreglu og leita réttar síns. Hún segist frekar vilja segja sögu sína. „Ég myndi gjarnan vilja að verkalýðsfélagið athugaði stöðu verkafólks á bænum. Það gengur ekki að rekstur sveitabæja á Íslandi gangi á þrælahaldi. Erlent vinnuafl á ekki að vera þriðja flokks fólk á Íslandi.“

Komin ný stelpa á bæinn

Nú eru vorverkin fram undan og annir um sumar og hún óttast að hjónin muni nýta sér ódýrt vinnuafl og koma sér hjá löglegri skráningu. „Það er komin ný stúlka á bæinn í stað mín. Ég þjálfaði hana upp. Þótt ég sé farin frá þeim þá fékk ég skilaboð frá þeim nýverið. Þeim finnst sjálfsagt að ég komi og baki fyrir afmælisveislu. Ég vil bara að þau geri þetta rétt. Þetta er ekkert persónulegt gagnvart þeim. Þau eru sjálfsagt ekki vont fólk, en eru samt að brjóta lögin.“ 

Hún segist vilja koma aftur til Íslands og leita sér betri tækifæra. „Ég kem undirbúin. Ég hef til dæmis áhuga á að leita betri tækifæra í ferðaþjónustu og þekki nú íslenskt samfélag. Ég þorði fyrst ekki að tala undir nafni vegna þess að ég óttaðist að fá ekki vinnu þegar ég kem aftur til Íslands en Íslendingar hafa verið duglegir að útskýra fyrir mér að hér eigi allir sinn rétt og svona gangi íslenskt samfélag hreinlega ekki fyrir sig.“

Lágmark 250 þúsund í laun

Zsófía hefði ekki getað verið á au-pair samningi. Vinnutími þeirra sem eru á slíkum samningi er aðeins 30 klukkustundir á viku, ekkert er dregið af launum fyrir fullt fæði og húsaskjól. Launin eru 12.500 krónur á viku og flugstyrkur, ef dvalið er í sex mánuði eða lengur til og frá landinu. 

„Húsmóðirin sagði við mig að hún hefði ekkert að gera með fólk í vinnu sem telur tímana sína. Þá kvartaði hún yfir því að það væri dýrt að þvo af mér,“ segir Zsófía frá.

Sérstakir kauptaxtar gilda um laun fyrir vinnu á bændabýlum. Það eru Bændasamtök Íslands og Starfsgreinasamband Íslands sem hafa umsjón með kjarasamningum verkafólks og eru samningar aðgengilegir á síðunni bondi.is.

Zsófía hefði samkvæmt samningnum átt að vera með 1.490 krónur á tímann í dagvinnu og 2.683 krónur á tímann í yfirvinnu. Mánaðarlaun hennar að lágmarki 258.402 krónur. Hámarksfrádráttur á dag vegna fæðis og húsnæðis eru 2.266 eða tæplega 70.000 krónur. Laun Zsófíu voru hins vegar um 130 þúsund krónum lægri.

Kallað eftir gögnum

Halldóra Sigríður Sveinsdóttir hjá Bárunni stéttarfélagi segir þær starfsgreinar sem skeri sig úr hvað varðar brot á starfsfólki séu ferðaþjónustan, ræstingarfyrirtæki og bændabýli. 

„Oftast eru mál mjög snúin þegar ekki er um ráðningarsamning að ræða, ekki skilgreindur vinnutími, ekki launaseðlar eða staðfesting á launagreiðslum eða þær eru handahófskenndar, segir Halldóra. 

„Stundum er ekki einu sinni kennitala. Við þurfum að kalla eftir gögnum fyrir hvern einstakling fyrir sig. Oft eru engin gögn til staðar þá þarf að skrá alla daga frá því vinna hófst og finna út vinnutímann og reikna svo upp kröfur miðað við kjarasamninga og gefa viðkomandi atvinnurekanda frest til þess að leiðrétta þennan „misskilning“ sem menn kalla gjarnan þegar þarna er komið.“

Halldóra segir að gangi það ekki eftir þá fari málið til lögfræðinga félagsins. „Þetta er oft tímafrekt og snúið ferli. Stéttarfélögin eru mikið í þessu ferli, að reikna út kröfur og innheimta en það girðir því miður ekki fyrir síendurtekin brot hjá sömu aðilum. Annars vegar eru þetta aðilar með einbeittan brotavilja eða ákveðin vanþekking sem auðvelt er að vinna með.“

Halldóra segir þurfa að skoða mál Zsófíu betur. „Þetta þarfnast frekari skoðunar. Það eru alltaf að koma upp ný og ný mál sem fær mann til þess að velta fyrir sér umfangi þessa. Við þurfum öll að taka höndum saman. Óska ég hér með eftir ábendingum frá samfélaginu til stéttarfélaganna og yfirvalda. Látum þetta ekki viðgangast,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×