Skoðun

Lygilegur jöfnuður?

Karl Garðarsson skrifar
Ísland á Evrópumet í jafnri dreifingu launa. Raunar dreifðust tekjur jafnar milli fólks hér á landi árið 2014 en nokkru sinni hefur sést síðan mælingar hófust árið 2004. Þetta kemur fram, bæði í félagsvísum 2015 og lífskjararannsókn Hagstofunnar 2015. Samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD er Ísland einnig skilgreint sem hálaunaland. Samkvæmt gögnum OECD eru meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland, þegar litið er til kaupmáttar. Sífellt fækkar í hópi þeirra landsmanna sem hafa tekjur undir lágtekjumörkum og atvinnuþátttaka eykst. Þetta er í raun lygileg staða og ótrúlegur árangur.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá aukinn jöfnuð í samfélaginu, en það er ekki þar með sagt að við viljum að allir séu á sömu launum, fyrir ólík störf. Það er grundvallaratriði að við metum menntun og ábyrgð til launa. Að öðrum kosti væri hvatinn fyrir menntun minni og erfitt gæti reynst að fá starfsmenn til að taka á sig aukna ábyrgð, með tilheyrandi álagi og auknu vinnuframlagi.

Þrátt fyrir góða stöðu Íslands og íbúa landsins eigum við að geta gert enn betur. Hlutfall Íslendinga sem er undir lágtekjumörkum hefur vissulega dregist saman á milli ára en 8% er enn of hátt. Ísland er ríkt af auðlindum og tækifærum til að bæta hag þeirra sem minna hafa. Við þurfum að hlúa að þeim tækifærum og vera duglegri að nýta þau.

Það er hins vegar áhyggjuefni að þrátt fyrir að tekjujöfnuður sé að aukast og kaupmáttur orðinn meiri, þá upplifir þjóðin það ekki svo að á Íslandi ríki jöfnuður. Sú upplifun er raunveruleg en snýr mun fremur að skiptingu auðs og arðs, fremur en launaumslaginu. Þegar fréttir á borð við himinháar arðgreiðslur úr tryggingarfélögum til hluthafa og gríðarlegar launahækkanir forstjóra berast dag eftir dag, er það ekkert skrítið. Þar þarf ríkið að sinna sínu hlutverki betur, að sinna hagsmunum neytenda.

Það má gera betur í mörgum málum. En það má líka gleðjast yfir því sem gott er. Stundum er líka nauðsynlegt að við minnum okkur á hversu gott við raunverulega höfum það, þó með þann metnað að leiðarljósi að ávallt er hægt að sækja lengra fram.




Skoðun

Sjá meira


×