Erlent

Deilt um stöðu kvenna innan norsku lögreglunnar

Atli Ísleifsson skrifar
Formaður jafnréttisnefndar norsku lögreglunnar segir að konum sé mismunað innan lögreglunnar.
Formaður jafnréttisnefndar norsku lögreglunnar segir að konum sé mismunað innan lögreglunnar. Vísir/AFP
Talsverð umræða hefur skapast um stöðu kvenna innan norku lögreglunnar eftir að Marit Fostervold, aðstoðarlögreglustjóri í Þrændalögum, dró umsókn sína um starf viðbúnaðarstjóra norsku lögreglunnar til baka í fyrr í mánuðinum.

Í frétt Adressa um málið kemur fram að Fostervold hafi dregið umsókn sína til baka viku áður en skipað var í stöðuna. Segist hún hafa tekið ákvörðunina eftir að hafa fengið símtal frá skrifstofu ríkislögreglunnar þar sem henni hafi verið tilkynnt að annar umsækjandi, Knut Smedsrud, skrifstofustjóri hjá ríkislögreglustjóra, væri fyrsti kostur, en að hún væri engu að síður beðin um að útvega lista yfir meðmælendur.

Adressa segir að ráðningin hafi vakið mikið umtal innan lögreglunnar í Noregi. Fostervold hafi sýnt fram á að hún hefði viðtæka reynslu sem myndi nýtast í starfinu. Þá sé ljóst að hlutfall kvenstjórnenda innan norsku lögreglunnar er mjög lágt og hefur lögregla sætt gagnrýni fyrir hvernig tekið sé á málum kvenna innan stéttarinnar.

Nasim Karim, formaður jafnréttisnefndar norsku lögreglunnar, segir að konum sé mismunað innan lögreglunnar og að kynferðisleg áreitni sé mikið vandamál.

Greint var frá því á föstudaginn að Knut Smedsrud hafi verið ráðinn í stöðuna. Ríkislögreglustjórinn Odd Reidar Humlegård segist ekki óska þess að fram fari sérstök óháð rannsókn á ráðningarferlinu, heldur segist ætla bjóða Fostervold til fundar til að ræða málið.

Alls sóttu þrettán manns um stöðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×