Fótbolti

Ferguson: Ronaldo besti fótboltamaður sinnar kynslóðar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sir Alex og Ronaldo á æfingu hjá Manchester United forðum daga.
Sir Alex og Ronaldo á æfingu hjá Manchester United forðum daga. vísir/getty
Sir Alex Ferguson segir að hver kynslóð eigi sinn einstaka fótboltamann og í dag er það nýkrýndi Evrópumeistarinn Cristiano Ronaldo.

Ronaldo, sem er nú allra manna líklegastur til að fá Gullbolta FIFA sem besti knattspyrnumaður heims á næsta ári, varð Evrópumeistari með Portúgal í fyrsta sinn á dögunum eftir að fagna sínum öðrum Evrópumeistaratitli með Real Madrid sex vikum fyrr.

Portúgalska undrið entist reyndar bara í 25 mínútur í úrslitaleik EM í Frakklandi vegna meiðsla en hann stóð vaktina á hliðarlínunni og hvatti sína menn til dáða er Portúgal vann fyrsta stóra titil þjóðarinnar í karlafótbolta frá upphafi.

Ferguson er maðurinn sem gerði Ronaldo að stjörnu en hann fékk leikmanninn til sín 18 ára gamlan frá Sporting árið 2003. Þessi 31 árs gamli kappi er búinn að vera á toppnum ansi lengi.

„Hann hefur ótrúlega þrá fyrir fótbolta, en Cristiano hlakkar til hverrar æfingar. Hann vill alltaf verða betri og vinna. Hann elskar stórleikina,“ segir Ferguson í viðtali við þýska íþróttablaðið Bild.

„Á mínum tíma hjá Manchester United var Cristiano leikmaðurinn sem þróaðist hvað mest og það gerði hann með því að leggja mikið á sig. Hann var alltaf að æfa skottæknina og að skalla.“

„Oftast geta leikmenn bara haldið sér á toppnum í fimm sex ár en svo er það búið. Cristiano er búinn að vera á toppnum í tíu ár. Það gerir hann svo einstakan. Hver kynslóð hefur sinn einstaka fótboltamann og í dag er það Cristiano,“ segir Sir Alex Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×