Innlent

Telja sig þekkja byssumennina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hópáflog áttu sér stað fyrir utan söluturninn Iðufell í kvöld en þeim lauk eftir að skotið var tveimur skotum úr haglabyssu.
Hópáflog áttu sér stað fyrir utan söluturninn Iðufell í kvöld en þeim lauk eftir að skotið var tveimur skotum úr haglabyssu. Vísir/Eyþór Árnason
Lögreglan telur sig vita hverjir hafi verið að verki í gær þegar tveimur skotum úr haglabyssu var skotið í átt að bifreið í Breiðholti í gærkvöld. Þetta kemur fram á vef mbl.is

Lögreglan leitar nú tveggja manna og ökutækis í kjölfar atviksins. Talið er að það tengist deilum innan þröngs hóps sem beinist ekki að almenningi.

Vitni segja að hópur manna, allt að 30-50, hafði safnast saman fyrir utan söluturninn og þar hafi verið mikil um læti áður en heljarinnar slagsmál brutust út. Vitni segjast hafa séð poka fullan af vopnum.

Hópurinn dreifðist í allar áttir eftir að skotið var tveimur skotum úr haglabyssu í átt að bifreið. Lögregla mætti á svæðið stuttu síðar og hafa sérsveitarmenn og lögreglumenn leitað á svæðinu að byssumanninum og öðrum sem komu að áflogunum.

Enn er unnið að því að upplýsa málið en ekki lítur út fyrir að neinn hafi slasast í skotárásinni. Rétt fyrir klukkan ellefu tilkynnti lögreglan að hættan væri liðin hjá.

Lögreglan var á staðnum fram yfir miðnætti við rannsókn málsins og leitaði gaumgæfilega í hverfinu að byssumanninum eða öðrum sem tengdust áflogunum.

Tvímenningarnir sem grunaðir eru um skotárásina eru ófundnir sem og bíllinn sem skotið var á.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×