Erlent

Juppe líklegastur til að verða forsetaefni franskra Repúblikana

Atli Ísleifsson skrifar
Alain Juppé hefur gegnt embætti borgarstjóra Bordeaux frá árinu 2006. Hann gegndi einnig embættinu og 1995 til 2004.
Alain Juppé hefur gegnt embætti borgarstjóra Bordeaux frá árinu 2006. Hann gegndi einnig embættinu og 1995 til 2004. Vísir/AFP
Alain Juppé mælist með öruggt forskot í skoðanakönnunum á helsta keppinaut sinn, Nicolas Sarkozy, í baráttunni um hver verður forsetaframbjóðandi Repúblikana í frönsku forsetakosningunum sem fram fara á næsta ári.

Könnun OpinionWay sýnir að 42 prósent flokksmanna Repúblikanaflokksins ætli sér að kjósa hinn hófsamari Juppé í fyrstu umferð kjörsins, en 28 prósent fyrrverandi forsetann Sarkozy. Í seinni umferðinni, þar sem kosið verður milli tveggja efstu, segjast 62 prósent myndu kjósa Juppe, en 38 prósent Sarkozy.

Rúmlega helmingur þeirra sem segjast myndu styðja þá Francois Fillon og Bruno Le Maire, sem einnig eru í kjöri, segjast munu styðja Juppe í síðari umferðinni, yrði kosið milli Juppé og Sarkozy. Einungis þriðjungur segist hins vegar munu styðja Sarkozy, en aðrir gáfu ekki upp afstöðu sína.

Hinn 71 árs Juppe gegndi embætti forsætisráðherra á árinum 1995 til 1997 og utanríkisráðherra á árunum 1993 til 1995 og 2011 til 2012. Hann er núverandi borgarstjóri Bordeaux.

Sarkozy hefur heitið því að endurheimta þjóðarstolt Frakka með því að berjast harkalega gegn auknum straumi innflytjenda og uppgangi herskárra íslamista. Í frétt Reuters kemur fram að talið sé að hann hafi með tali sínu misst mikinn stuðning meðal miðjusinnaðra flokksmanna.

Flokksmenn Repúblikanaflokksins munu velja sér sinn forsetaframbjóðanda þann 20. og 27. nóvember. Fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi fara svo fram í apríl, en sú síðari í maí.

Skoðanakannanir í Frakklandi benda til þess að sigurvegarinn í kjöri Repúblikanaflokksins verði kjörinn næsti forseti Frakklands. Nær öruggt þykir að Marine Le Pen, leiðtogi þjóðernisflokksins Front National, verði annar þeirra frambjóðanda sem kemst í síðari umferð forsetakosninganna, en að þar muni hún bíða lægri hlut fyrir andstæðingi sínum.

Kannanir sýna að frambjóðandi Repúblikana muni hafa betur gegn frambjóðanda Sósíalista í fyrri umferðinni, sama hvort það verði Francois Hollande Frakklandsforseti eða einhver annar. Því muni frambjóðandi Repúblikana etja kappi við Le Pen í síðari umferðinni.

Sósíalistar munu velja sinn forsetaframbjóðanda í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×