Innlent

Lögreglan fær 500 milljónum króna minna í ár en 2007

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögreglumönnum hefur fækkað um nærri 100 á öllu landinu á tímabilinu. Á sama tíma hefur fjöldi ferðamanna margfaldast. Fréttablaðið/Pjetur
Lögreglumönnum hefur fækkað um nærri 100 á öllu landinu á tímabilinu. Á sama tíma hefur fjöldi ferðamanna margfaldast. Fréttablaðið/Pjetur
Þrátt fyrir framlög á fjárlögum til lögreglunnar hafi aukist frá árinu 2013 fær lögreglan á höfuðborgarsvæðinu um 500 milljón krónum lægri fjárveitingu í ár en árið 2007.

Innanríkisráðherra hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að frá árinu 2013 hafi framlag til löggæslumála hækkað um tæplega 1,9 milljarða króna á verðlagi ársins 2016 og að það hafi verið forgangsmál innanríkisráðherra að efla löggæslu í landinu. Yfirlýsingin er send til að bregðast við fjölmiðlaumfjöllun um fjárhagsstöðu lögreglunnar undanfarið en mikið hefur verið fjallað um manneklu þar.

Lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu voru sameinuð í eitt þann 1. janúar árið 2007. Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um fjárveitingar til embættisins frá stofnun þess. Séu tölurnar skoðaðar sést bersýnilega að framlag til lögreglunnar, uppreiknað á verðlag ársins 2016, er 500 milljón krónum lægra í ár en það var árið 2007. Lægst var framlagið árið 2011 og 2012 en þá var það um milljarði lægra en á upphafsári embættisins. Þessi mismunur er þrátt fyrir innspýtingaraðgerð innanríkisráðuneytisins til lögreglunnar og tekur ekki tillit til þeirra kjarasamningshækkana sem orðið hafa á tímabilinu.

Halldór Halldórsson, fjármálastjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, tók saman tölurnar og segir að þær miði við sömu forsendur og gefnar séu í yfirlýsingu innanríkisráðherra. Í yfirlýsingunni sé talað um tæplega 1,9 milljarða króna hækkun sem sé samanlögð hækkun á þriggja ára tímabili, uppreiknað á verðgildi ársins 2016.

Framlög tóku að lækka til embættisins strax á öðru starfsári þess 2008 eða um sem nemur 300 milljón krónum lægra fjárframlagi en árinu áður. Stærstu dýfu tímabilsins tók fjárframlagið árið 2009 þegar fjárveitingin var lækkuð um 400 milljónir á einu bretti frá árinu á undan, eða 900 milljón krónum lægra framlag en árið 2007. Í Fréttablaðinu í gær sagði Úlfar Lúðvíksson, formaður lögreglustjórafélags Íslands og lögreglustjóri á Vesturlandi, að fjárhagsstaða lögreglunnar í landinu hefði þó ekki verið góð árið 2007.

Halldór Halldórsson fjármálastjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Framlög til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hófu að hækka aftur á síðasta starfsári síðustu ríkisstjórnar og enn frekar í tíð sitjandi ríkisstjórnar.

„Við fáum smá innspýtingu árið 2014 og þá er mismunurinn kominn niður í 800 milljónir. Fjárheimildir embættisins árið 2007, á verðlagi ársins 2016, voru 4,8 milljarðar en eru orðnir 4,3 milljarðar í dag. Þarna er mismunur upp á 500 milljónir en horfnir út úr rekstrinum á þessu tímabili eru samtals sjö milljarðar króna,“ segir Halldór.

„Það er sagt að lögreglan sé búin að fá svo og svo mikla viðbót frá árinu 2013 og það er alveg rétt. En ef maður horfir bara á okkar stofnun frá því rétt fyrir hrun þá er útkoman þessi. Þetta eru bara hreinar tölur. Svona er þetta bara.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×