Innlent

Stóra BDSM-málið: „Getum við ekki við unnt fólki þess sama og við börðumst sjálf fyrir til handa okkur?“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aðild BDSM-samtakanna ætlar að reynast Samtökunum ´78 ákaflega erfið viðureignar. Myndin er samsett.
Aðild BDSM-samtakanna ætlar að reynast Samtökunum ´78 ákaflega erfið viðureignar. Myndin er samsett. Vísir
Nýr formaður verður kjörinn hjá Samtökunum ’78 á aðalfundi félagsins í dag sem hófst í Þjóðleikhúskjallaranum klukkan tólf. Hilmar Hildar Magnússon hætti sem formaður samtakanna í maí og segir í harðorðum pistli sem hann birtir í dag ljóst að hann muni ekki snúa aftur til starfa fyrir samtökin. Hann gerir framboð Kristínar Sævarsdóttur að aðalefni í pistli sínum og segir:



Fari Kristín Sævarsdóttir og velunnarar hennar með sigur af hólmi á morgun, sunnudaginn 11. september 2016, segi ég umsvifalaust skilið við Samtökin ‘78.“

Kristín er í framboð til formennsku ásamt Maríu Helgu Guðmundsdóttur. Önnur þeirra verður kjörin nýr formaður á aðalfundinum í dag. Ólga hefur verið innan samtakanna undanfarin misseri vegna deilna um það hvort veita eigi BDSM-samtökunum aðgang eða ekki. Kristín leggst gegn aðild BDSM-samtakanna að Samtökunum '78 en María Helga er fylgjandi aðild. 

Aðildarumsókn BDSM-samtakanna var samþykkt í mars síðastliðnum og sagði Hilmar við það tilefni að ákvörðunin væri við það að kljúfa samtökin. Var nokkuð um úrsagnir úr samtökunum, aðallega hjá eldra fólki.

„Samtökin 78 eru komin í vegferð sem ég er ekki sátt við. Ég mætti ekki á aðalfund og get því sjálfri mér um kennt að BDSM félagið fékk samþykkta aðild að Samtökunum 78 í lýðræðislegri atkvæðagreiðslu. Auðvelda leiðin væri að segja sig úr félaginu en þannig er ég ekki vön að starfa. Stundum er gott að bíða aðeins og hugsa málið,“ sagði Kristín við það tilefni. Nú er hún í framboði til fomanns.

María Helga segir að regnhlíf Samtakanna ‘78 hafi undanfarin ár víkkað í takt við þróun hinsegin samfélagsins í nágrannalöndum okkar og breytingar á stöðu hinsegin fólks hér heima fyrir. 

„Það er minn eindreginn vilji að félagið starfi áfram á þeim forsendum að öll þau sem leggja vilja hönd á plóg séu boðin velkomin. Baráttumál ólíkra hópa innan hinsegin samfélagsins eru ekki alltaf þau sömu, en skörunin er mikil. Samstaðan eykur slagkraft okkar í baráttunni fyrir auknu réttlæti.“

Ljóst er að kaflaskil verða hjá Samtökunum óháð því hver úrslitin verða. Líklegt má telja að fólk úr þeirri fylkingu sem bíður lægri hlut muni segja sig úr samtökunum. Hilmar er afar gagnrýninn á hugmyndafræði Kristínar og félaga.

Kristín Sævarsdóttir, formannsframbjóðandi í Samtökunum ´78.
„Make your own parade!“

„Það er í raun hálf óþarft að ræða hugmyndafræðina núna. Hana hafa Kristín og velunnarar hennar ítrekað neglt mjög fast í vitund okkar,“ segir Hilmar. 

„Fyrstu viðbrögð fyrrum formanns, Hrafnhildar Gunnarsdóttur, við aðalfundinum 5. mars sl. gáfu í raun tóninn fyrir það sem kom á eftir. Þetta var vondur dagur fyrir homma og lesbíur. Nefnilega. Það var ekkert minnst á aðra hópa í hinsegin samfélaginu. Þetta minni hefur svo skotið upp kollinum í umræðunni í ýmsum misljótum myndum síðan. Það vantar ekki að ýmsir velunnarar hafi tjáð sig um hversu mikla samúð þeir hafi með BDSM fólki, eða öðrum hópum ef út í það er farið. Sumir hafa meira segja gengið svo langt að skilgreina í mín eyru hvað BDSM er og hvað það er ekki, verandi hvorki BDSM né telja sig þurfa að hlusta á hvernig BDSM fólk vill sjálft skilgreina eigin tilveru. Sá böggull fylgir hins vegar þessu skammrifi að þrátt fyrir samkenndina og velviljann, já þrátt fyrir það, að þá þarf nú BDSM fólk samkvæmt þessum röddum barasta að heyja sína eigin baráttu fyrst. „Make your own parade!“ var sagt hér svo eftirminnilega á vordögum.“

Við þessa orðræðu aðskilnaðar og útskúfunar hrukku margir illilega við að sögn Hilmars. Og mörg ár aftur í tímann. 

Margrét Pála Ólafsdóttir.
„Aflúsuð“ á sínum tíma

„Margir vina minna sem eru tvíkynhneigt fólk, trans eða intersex endurupplifði fálæti og útskúfun liðinna ára. Margt samkynhneigt fólk endurupplifði orðræðu liðinnar tíðar. Þar sem efast var um skilgreiningar þess á eigin kynhneigð. Þar sem hreinlega var efast um tilveru þess. „Þetta er ekki hneigð!“ Umræðan var í sjálfu sér þegar orðin nógu ljót en botninn tók þó algerlega úr þegar velunnarar fóru að hampa grein Veturliða Guðnasonar á dögunum. Einni verstu grein sem skrifuð hefur verið um hinsegin málefni á Íslandi hin síðari ár. Grein þar sem hann með nokkuð einbeittum vilja og vel völdum og eitruðum orðum þurrkaði hreinlega út tilvist heilu hópanna innan hinsegin samfélagsins. Erum við virkilega ekki komin lengra? Getum við ekki unnt öðru fólki þess að skilgreina sig sjálft? Getum við ekki við unnt fólki þess sama og við börðumst sjálf fyrir til handa okkur? Erum við í alvörunni á þeim stað?“

Formaðurinn fráfarandi bendir á hve unga fólkið okkar er blessunarlega laust við skömmina sem okkur hefur verið svo lengi innrætt. 

„Mér verður iðulega hugsað til skammarinnar þegar BDSM mál ber á góma. Gleymum því ekki að samtökin okkar voru „aflúsuð“ á sínum tíma. Kláminu var hent út og flestar tengingar í kynlíf afmáðar.“

Þessu hafi Margrét Pála Ólafsdóttir fyrrum formaður lýst mjög vel. 

„Það þurfti jú að hafa okkur stofuhrein og kassavön á meðan við vorum að berjast fyrir réttindum okkar innan um fína gagnkynhneigða fólkið í stjórnsýslunni. Mögulega var þetta réttmæt aðgerð á sínum tíma. Klókt pólitískt séð. En mikið ósköp höfum við mörg saknað þess að geta óhindrað og blátt áfram tjáð okkur um hluti eins og kynfrelsi, kynheilbrigði og barasta kynlíf.“

Hilmar Hilda, fráfarandi formaður Samtakanna '78.Vísir/Vilhelm
Hvað ef hægt hefði verið að gúggla fyrir fjörutíu árum?

Hann segist persónulega oðrinn þreyttur á því hvernig við sem samfélag sífellt ritskoðum okkur og veljum að tala bara um hluta okkar tilveru. 

„Hvað höfum við ekki oft heyrt frasa í líkingu við „Mér kemur ekki við hvað fólk gerir í svefnherberginu!“? Eða „þetta snýst bara um ást!“ þegar rætt er um hinsegin fólk og kynlíf. Fólk forðast það hreinlega eins og heitann eldinn að ræða opinberlega kynlíf hinsegin fólks. Forðast það á sama tíma og gagnkynhneigt kynlíf flæðir hér óhindrað um samfélagið í öllum sínum myndum. Hvers vegna ætli það sé? Gæti verið að það sé vegna þess að við veigrum okkur við því að tala um það? Vegna þess að okkur hafi verið kennt að það sé skammarlegt? Einn af jákvæðu hlutunum, og nú er ég ekki að segja að BDSM sé eingöngu kynlíf - því það er svo miklu meira en það, en einn af jákvæðu hlutunum við þessa umræðu er samt sá að „Stóra BDSM málið“ hefur opnað allar flóðgáttir hvað þetta varðar. Það er mjög gott. Það er mjög tímabært. Og fyrir það vil ég þakka félögum í BDSM á Íslandi.“

Hilmar segir velunnara hafa talað um samtökin í rúst, sem skemmt vörumerki og tekið andköf yfir myndum sem þau hafi fundið um BDSM á Google. Í því samhengi megi reyndar spyrja hvaða óhróður internetið hefði sýnt um samkynhneigt fólk ef hægt hefði verið að „gúggla“ það fyrir 40 árum. 

„Getur verið að hér sé skömmin að verki? Getur verið að fólk óttist að fordómarnir sem skítuga kinky fólkið í BDSM verður fyrir smitist yfir á það sjálft? Gæti það hugsast? Að það óttist að hinn óskilgreindi „meirihluti“ snúi umsvifalaust við því bakinu ef því skyldi detta í hug að hleypa BDSM fólki undir skjól regnhlífarinnar?“

Ætti slíkur ótti við rök að styðjast, sem Hilmar reyndar stórlega efast um, segist Hilmar mega telja að gott væri að fá þá upp á yfirborðið. 

„Því umburðarlyndi gagnvart hinsegin fólki, umburðarlyndi sem hverfur eins og dögg fyrir sólu við það eitt að hinsegin fólk veiti litlum hópi fólks skjól undir regnhlífinni, það er sannarlega ekkert umburðarlyndi. Það er skilyrt umburðarlyndi. Það er í raun ekkert annað en svikalogn.“

María Helga Guðmundsdóttir býður sig fram til formennsku.Vísir/Anton Brink
Samskiptum við „þetta fólk“ lokið

Hilmar segist upplifa hreinan yfirgang frá Kristínu og hennar fólki, „sem „Mína leið eða enga leið - sama hvað það kostar!“. Vísar hann í pistli sínum endurtekið til þess að fólk sé vaknað af þyrnirósasvefni, hafi aldrei gert athugasemdir við starfið undanfarin ár en stökkvi nú til og bendi í allar áttir, allt sé ómögulegt. Hvort sem við komi húsnæðismálum, bókasafni samtakanna eða öðru. Honum finnist illa vegið að fólki sem hafi starfað af miklum heilindum fyrir samtökin.

„Velunnarar“ gátu alltaf valið að mæta mér og samstarfsfólki mínu í stjórn í samtali og leita samstarfs. En þau gerðu það ekki. Alltaf fóru þau í hart. Þessi hópur hefur nú fengið öllu sínu framgengt. Þau hafa meira að segja komið sér hálfvegis inn í stjórn félagsins með kröfum sínum. Ekkert er gert án þeirra samþykkis. Ekkert er gert án samþykkis þessa fólks sem hefur lýst frati á okkur, haft hátt um meinta valdníðslu okkar, ólýðræðislega stjórnarhætti og valdagrægði. En hvar voru þau kosin til starfans? Í hvaða umboði starfa þau? Hvað hafa þau umfram aðra félaga?“

Hann segist hitta „þetta fólk“ á ýmsum fundum hvort sem er opinberum eða lokuðum, eða þá prívat og persónulega.

„Upplifunin hefur ætið verið mjög neikvæð. Ég hef upplifað hroka og yfirlæti í minn garð, óvild og almenn andstyggilegheit. Ég minnist sérstaklega fundar í vor þar sem við höfðum boðið til samtals. Þar sem þau mættu, tvöfalt fleiri, með kröfugerð. Þar sem þau stungu upp á að fara í „kynningarhring“ þar sem fólk átti að segja deili á sér - og nefna sérstaklega hvenær það kom fyrst á vettvang Samtakanna ‘78. “

Hilmar segir að þar hafi honum verið öllum lokið.

„Þvílíkur grímulaus sálfræðihernaður. Allt til þess að negla inn í vitund okkar hver það væri sem ætti meira tilkall til þessa félags. Eitt okkar gekk í gildruna og leið á eftir afar illa vegna þeirrar auðmýkingar. Þau gengu meira að segja svo langt í því að leggja okkur unga og óvitandi fólkinu lífsreglurnar að ég var skyndilega orðinn fjórum árum yngri en ég er. Því einhverra hluta vegna höfðu þau dregið mengi fáviskunnar utan um fólk fætt eftir 1980. Og skilaboðin. Hver eru þau? Jú, að þú unga manneskja eigir að skammast þín yfir því að vera að væla yfir þínu hlutskipti. Þín reynsla er ekkert á við mína. Ekkert.“

Þá segist Hilmar sjaldan á ævi sinni hafa upplifað jafn súrrealísk, hrokafull og ömurleg samskipti.

„Þau eru til þess gerð að brenna fólk upp. Ég gerði það - og ég veit um annað fólk sem hefur gert það eða er á góðri leið með það. Ég hafði allt frá því í vor oft hugsað um hvaða tilfinning kom yfir mig þegar ég gekk út. Aldrei komið fingrinum almennilega á það. Á dögunum áttaði ég mig loksins á því hvað þetta væri. Þetta var sama tilfinning og kemur yfir mann þegar maður sleppur úr ofbeldissambandi. Ég þekki það. Það skýrði þennan óendilega létti sem ég fann.“

Hilmar segir ljóst að nú eigi að ná félaginu úr klóm „pólitísku róttæklinganna“.

„Það gera þau með öllum þeim meðölum sem ég hef lýst hér að framan. Með því að kasta rýrð á allt það góð starf sem hefur verið unnið og dylgja um það frábæra starfsfólk og sjálfboðaliða sem hefur haldið starfseminni gangandi. Þau átta sig mögulega ekki á því hvað þau eru að gera. Hvað þau hafa brennt margar brýr að baki sér í ferlinu. Þau átta sig mögulega ekki á því að þeim fer óðum fækkandi sem geta hugsað sér að vinna með þeim. Þyrnirós er sannarlega vöknuð en gallinn er bara sá að þyrnigerðið sem hún ræktar af kappi í kringum sig er baneitrað. Ég get ekki hugsað mér að snerta það. Aldrei meir. Ekki svo að skilja að mér þyki ekki ógurlega vænt um margt fólk í Samtökunum ‘78. Þar hef ég eignast marga vini fyrir lífstíð. Samskiptum mínum við þetta fólk er hins vegar lokið.“

Ekki lengur kúl að vera hommi

Kristín skrifaði framboðspistil á Vísi á dögunum þar sem hún sagði mikilvægt að samtökin einbeittu sér að því sem sameini þau til að þau eigi sér lífvænlega framtíð. Ljóst sé að erfitt verði að sætta mjög ólík sjónarmið á fundinum í dag.

„Orðræðan er heill kapítuli fyrir sig en þar sýnist mér þjónusta við félagsfólk hafa vikið fyrir viðhorfum holuðum af þröngsýnu fræðimannasamfélagi þar sem gefin er lína um það hvað fólki sé þóknanlegt. Fólk hefur hrökklast í burtu eftir fyrstu heimsókn á vettvang félagsins þar sem því fannst það ekki passa inn í nýju kassana, nýju skilgreiningarnar - nú er t.d. ekki kúl að vera bara hommi. Fyrir mér hafa Samtökin ´78 ekki verið félag þar sem stafróf skilgreininga er haft til hliðsjónar öllu starfi og fólk hefur þurft að aðhyllast valdar kenningar ákveðinna fræðimanna til þess að vera viðurkenndir félagar með fullt málfrelsi,“ segir Kristín.

Hún hefur áhyggjur af orðræðunni sem hún upplifi á samfélagsmiðlum og manna á milli undanfarið. 

„Mér hefur þótt það sárara en tárum taki að heyra umræðu um að hommar yfir fimmtugu séu „afturgöngur“ og samkynhneigt fólk almennt sé forréttindafólk sem skilji ekki réttindabaráttu annarra. Ég þekkti of marga homma sem dóu úr alnæmi eða flúðu land vegna þess að þeim var ekki líft hér á landi sökum ofsókna. Ég man þegar hommar voru beittir ofbeldi á skemmtistöðum og lagðir í einelti af lögreglunni vegna tilveru sinnar. Ég þekkti líka lesbíur og homma sem tóku eigið líf vegna þess að það var of mikil barátta fólgin í að lifa. Ég sjálf hef verið rekin úr starfi vegna kynhneigðar og vegna þess að ég tilheyrði ekki hinum gagnkynhneigða meirihluta. Ég hef verið kölluð „þetta fólk“. Ég hef fengið hótanir um líkamsmeiðingar og dæmi eru um að yfirmenn mínir í starfi hafa fengið símtöl um að þeir hafi haft kynvilling í starfi.  Ekki kalla okkur forréttindamanneskjur!“

Úrslit í kjöri til formanns munu liggja fyrir síðar í dag og verður greint frá þeim á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×