Skoðun

Var kirkjan framfaraafl eða ekki?

Ingólfur Sigurðsson skrifar
Ég hafði gaman af að lesa svargrein Skúla Ólafssonar, prests í Neskirkju, við bakþönkum Frosta Logasonar nýlega. Svargreinin er skrifuð af ágætri þekkingu en lituð af kristnu viðhorfi. Það viðhorf litar svo söguskoðunina í greininni.

Skúli reynir í grein sinni að hrekja þá fullyrðingu, sem frekar lá til grundvallar skrifum Frosta en að hann hafi mikið á það minnst í bakþönkunum, að kirkjan hafi barist gegn þekkingunni í gegnum tíðina. Það er rétt hjá honum að klaustrin voru helstu fræðasetur miðaldar, en vegna einokunarstöðu kirkjunnar þó, vel að merkja.

Þegar hann rekur kirkjulegar rætur margra erlendra háskóla og hjálparstofnana skal þó minnast á að upplýsingabyltingin hafði frekar áhrif á stofnendurna heldur en öfugt, enda útilokar ekkert að kristnir menn hafi áhuga á vísindum, en saga trúarbragðanna sýnir það samt að vindar samfélagsáhrifanna eru frekar aflvakar en afleiðingar þegar kemur að vísindaframförum. Þekkt er andstaða kirkjunnar gegn sólmiðjukenningunni, og ofsóknirnar gegn Brúnó, Galíeó og fleiri vísindamönnum.

Ég er sammála Skúla undir lok greinarinnar þegar hann talar um að umhverfisverndin sé eitt brýnasta mál nútímans. Framfarahyggjunni er þó tæpast um að kenna. Förum í upphaf Biblíunnar. Í Genesis er Adam og Evu skipað að uppfylla jörðina, og gera sér hana undirgefna. Þetta er einmitt vandamálið, en kynjafræði og femínismi hafa leitt okkur í allan sannleika um það hvernig þessi kristna afstaða er í raun sú afstaða til konunnar almennt sem berjast þarf gegn. Á móti kemur að hugmyndin í Ásatrú um Lífstréð, Ask Yggdrasils, byggir á hugmyndum um tengsl lífkerfisins og allra lífvera, þar er á ferðinni algræn hugmynd.




Skoðun

Sjá meira


×