Skoðun

Gefum heilanum gaum: Forvarnir fyrir Alzheimerssjúkdóm

Brynhildur Jónsdóttir skrifar
Alzheimerssjúkdómurinn er framsækinn og óafturkræfur heilasjúkdómur sem smám saman veikir hugarstarf fólks, þangað til það getur ekki lengur sjálft framkvæmt einföldustu athafnir daglegs lífs. Áður en fyrstu einkenni koma fram í hegðun hefur sjúkdómurinn þó dreift úr sér í heilanum í mörg ár eða jafnvel áratugi.

Ýmsir þættir, bæði erfðafræðilegir og lífsstílstengdir, geta aukið eða minnkað líkurnar á að fólk greinist með Alzheimerssjúkdóm, en stærsti áhættuþátturinn er þó aldur. Miklar breytingar eru að verða á aldurssamsetningu vestrænna þjóða og af þessum sökum er búist við að heildarfjöldi Alzheimerssjúklinga muni aukast um 110% frá árinu 2010 til ársins 2050.

Þessi framtíðarspá veldur mörgum áhyggjum og skrifuðu 109 vísindamenn frá 36 löndum undir áskorun til forystumanna G8 ríkjanna árið 2013, um að gera forvarnir fyrir heilabilun að einu af forgangsverkefnunum í heilbrigðisþjónustu. Þessir vísindamenn töldu að í um það bil helmingi tilfella sé Alzheimerssjúkdómur til kominn af völdum þekktra áhættuþátta og með því að gera átak í að minnka þessa áhættuþætti mætti fækka sjúkdómstilfellum um fimmtung fyrir árið 2025. Aðrir hafa reiknað út að 10-15% minnkun á nokkrum áhættuþáttum Alzheimerssjúkdómsins, geti haft í för með sér fækkun sjúkdómstilfella um 1,1 til 3 milljónir á heimsvísu.

Í grófum dráttum má skipta sjúkdómsferli Alzheimerssjúkdóms í þrennt, þ.e. upplifaða minnisskerðingu, væga vitræna skerðingu og heilabilun, eftir stigvaxandi alvarleika sjúkdómsins. Fólkið sem er lengst komið í sjúkdómsferlinu og er komið á stig heilabilunar, á oft kost á dagþjálfun á endurhæfingardeildum fyrir aldraða. Engin sérhæfð endurhæfing er þó í boði fyrir fólk með upplifað minnistap eða væga vitræna skerðingu. Hér er því mikið rúm til endurbóta.

Einungis greining en engin ­meðferð

Í fyrsta lagi mætti beina forvörnum að fólki á miðjum aldri sem sumt er byrjað að þróa með sér heilabilunarsjúkdóm án þess að finna fyrir verulegum einkennum. Þetta mætti gera með markvissum aðgerðum sem miða að því að minnka reykingar, auka hreyfingu, hvetja til holls mataræðis, minnka sykursýki og meðhöndla háþrýsting. Í öðru lagi mætti bjóða fólki með allra fyrstu einkenni Alzheimerssjúkdóms, en er ennþá vel starfhæft í daglegu lífi, upp á endurhæfingu sem miðar að því að halda því sem lengst frá heilabilunarstiginu, t.d. með markvissri hreyfingu, hugrænni þjálfun, félagslegri virkni o.s.frv. Eins og staðan er í dag fær fólk á allra fyrstu stigum Alzheimerssjúkdómsins einungis greiningu en enga meðferð, að undanskildum lyfjum sem í sumum tilfellum geta hægt á framgangi sjúkdómsins í takmarkaðan tíma. Það er dapurleg staða að fá greiningu um allra fyrstu stig heilabilunarsjúkdóms en engin úrræði til að spyrna við fótum.

Við lesum daglega í fjölmiðlum um aðþrengt heilbrigðiskerfi þar sem starfsfólk er á harðahlaupum við að halda öllu gangandi, oft á tíðum við óviðunandi aðstæður. Miðað við mannfjöldaspár mun álagið í fyrirsjáanlegri framtíð að öllum líkindum aukast ennþá meira ef ekkert verður að gert. Við þekkjum öll einstaklinga sem hafa náð háum aldri án þess að hugrænni færni þeirri hraki svo neinu nemi. Við vitum líka að hægt er að gera ýmislegt til að stuðla að því að sem flest okkar geti lifað lengi við góða heilsu og heilbrigt hugarstarf. Með því að fara í markvissar forvarnir getum við sparað peninga og aukið lífsgæði einstaklinga í samfélagi okkar og létt álagi af heilbrigðiskerfi framtíðarinnar.

Lengri útgáfu þessarar greinar má finna á heilahreysti.is




Skoðun

Sjá meira


×