Skoðun

Ný lausn fyrir fólk með heilaskaða

Guðrún Harpa Heimisdóttir og Dís Gylfadóttir skrifar
Marsmánuður er um allan heim tileinkaður fólki með ákominn heilaskaða. Við fögnum því framtaki mjög og ekki að tilefnislausu. Þekkingunni innan heilbrigðisgeirans, félagslega kerfisins, hjá stjórnvöldum og meðal almennings er afar ábótavant. Hvar sem við komum inn með fræðslu um ákominn heilaskaða verður fólk eitt spurningarmerki í framan og flestir eru sammála um eitt: þessi hópur hefur algerlega gleymst í umræðunni og kerfinu.

Áverkar á höfði eru taldir ein algengasta ástæða heilsufarsvanda hjá börnum og ungu fólki á Vesturlöndum og er Ísland þar engin undantekning. Áætla má að um 500 einstaklingar hér á landi séu með heilaskaða af völdum slysa, líkamsárása, íþróttameiðsla og falla. Talið er að af þeim fjölda þurfi um 80 einstaklingar á sérhæfðri endurhæfingu að halda.

Heilaskaði er dulin fötlun sem sést yfirleitt ekki utan á fólki en getur haft víðtæk áhrif og gjörbreytt lífi einstaklingsins og haft neikvæð áhrif á fjölskyldulíf og framtíðaráform. Mikill skortur er á upplýsingum og faglegri ráðgjöf til einstaklinga og aðstandenda. Í dag er töluverður fjöldi án greiningar og viðeigandi meðferðar sem leiðir til verulega aukinnar hættu hvað varðar geðræn vandamál og ýmiss konar áhættuhegðun.

Höfuðhúsið

Í umræðunni um heilbrigðismál er mikilvægt að öllum sé sinnt, hvort sem áverkarnir eru sýnilegir eða ekki. Í dag er engin langtímaendur­hæfing í boði á Íslandi fyrir fólk með ákominn heilaskaða, enginn samastaður þar sem fólk getur nálgast fræðslu eða námskeið og fengið hjálp við að fóta sig við breyttar aðstæður. Við erum 20-30 árum á eftir nágrannalöndunum þegar kemur að endurhæfingu og þjónustu við þennan hóp.

Við hjá Hugarfari viljum koma á fót endurhæfingar- og fræðslumiðstöð fyrir fólk með ákominn heilaskaða. Miðstöðin bæri heitið Höfuð­húsið og byggir annars vegar á danskri fyrirmynd og hugmyndafræði club-house hreyfingarinnar og hins vegar á breskri fyrirmynd, heilaskaðamiðstöð sem fólk hefur aðgang að ævilangt.

Í Höfuðhúsinu gæfist einstaklingum og aðstandendum tækifæri til að fá þjónustu fagfólks, fá fræðslu og hitta aðra í sömu sporum. Einstaklingum gæfist kostur á að taka þátt í vinnusamfélagi, leggja sitt af mörkum til að reka starfsemina og finna styrkleika sína í leiðinni. Fólk leggur af mörkum það sem það er fært um en hvert verk sem tekist er á við getur styrkt sjálfsmyndina. Þar verður áhersla lögð á að læra og eflast í gegnum vinnuna.

Virkir þátttakendur í samfélaginu á ný

Tilgangur Höfuðhússins er að rjúfa félagslega einangrun og brúa bilið út í samfélagið á ný. Einstaklingar sem hljóta heilaskaða þurfa aðstoð við að fóta sig í lífinu á ný og þá aðstoð eigum við sem samfélag að veita. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að verða aftur virkur þátttakandi í samfélaginu, í starfi eða námi, í fjölskyldu sinni og félagslífi. Það er ekki einungis verðmætt fyrir einstaklinginn sjálfan og aðstandendur hans, heldur einnig fyrir samfélagið í heild.

Nú er kominn tími til að tekið verði á þessum málum, mótuð verði stefna í málefnum fólks með ákominn heilaskaða og boðið verði upp á endurhæfingarúrræði við hæfi. Lífi sem er bjargað verður að gefast tækifæri til að lifa.




Skoðun

Sjá meira


×