Skoðun

Á skal að ósi stemma

Sigurður R. Þórðarson skrifar
Í umfjöllun Fréttablaðsins 15.03. 2016 um deilumál Hrafns Gunnlaugssonar og fleiri sumarbústaðaeigenda við Elliðavatn vekja athygli rökfærslur Bjarna Bjarnasonar, forstjóra OR, um að þessi aðgerð teljist til langtímamarkmiða sem gerð eru í þágu vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu.

Ég held því miður að þessi gjörningur hljóti að teljast vera gerður í þágu einhverra annarra hagsmuna en vatnsverndar. Rök fyrir að svo muni vera á öðrum og mikilvægari sviðum umhverfisverndar í umsjá OR, sérstaklega er varðar verndun kannski verðmætustu sameignar þjóðarinnar, kalda vatnsins í Heiðmörk, virðast vera ærin. Þetta á við þegar kemur að því að stöðva meðvitaða ásókn hinna ýmsu hagsmunaaðila inn á vatnsverndarsvæði OR. Þar sem almennt er vitað að vatn er þeirrar náttúru að renna undan halla er staðsetning þessara tilteknu sumarbústaða þess vegna til muna hættuminni en þau umsvif er blasa við þegar ekið er austur yfir fjall.

Til að nefna örfá dæmi um þá hættu sem blasir við framtíðarheilbrigði kaldavatnsauðlindarinnar í Heiðmörk og stofnað hefur verið til af OR og heilbrigðisyfirvöldum á svæðinu má nefna:

  • Ótakmörkuð umsvif við jarðhitaorkuvinnslu á Hellisheiði með tilheyrandi niðurdælingu brennisteinsvetnismengaðs vatns.

    Aukin umsvif á Bláfjallasvæðinu auk nýlegra olíuslysa í tengslum við heimsóknir ferðamanna að Þríhnúkagíg.
  • Flutningur 40.000 rúmmetra af olíumenguðum uppgreftri sem fluttur var af svæðinu neðan Öskjuhlíðar til losunar í Hólmsheiði, gegnt Gvendarbrunnum. Aðgerð sem reyndar var stöðvuð á síðari stigum, þegar þessir flutningar voru langt komnir.
  • Starfsemi Waldorfskólans sunnan Lögbergs.
  • Heimild heilbrigðisyfirvalda á höfuðborgarsvæðinu til losunar gríðarlegs magns jarðvegsúrgangs í Bolaöldum. Með sérstöku fyrirheiti sömu heilbrigðisyfirvalda um að þau sæju Bolaöldur fyrir sér sem framtíðarstaðsetningu fyrir sorpflokkun. Fréttir af þessum skelfilegu áformum mátti lesa í Morgunblaðsumfjöllun 16. mars 2012.
  • Heimild umhverfisráðherra til keppnishalds og æfinga torfæruklúbba höfuðborgarsvæðisins í Jósepsdal, þar sem talið var í ráðuneytinu að tiltekinn dalur væri á Vestfjörðum.
  • Auk annarra smámuna, svo sem heimildar heilbrigðisyfirvalda til dreifingar hænsnaskíts á Sandskeiði.
Vegna allra framangreindra verkefna hefur undirritaður óskað skriflegra umsagna eða rökfærslna fyrir heimildum umhverfisráðuneytis og annarra stjórnsýslustofnana fyrir þessum ákvörðunum. Engu þeirra erinda hefur verið svarað, sem líka er brot á stjórnsýslulögum.

Ég er eindregið þeirrar skoðunar að stjórn OR ætti að líta sér nær og taka til í meira aðkallandi verkefnum en að fjarlægja nefnda sumarbústaði.

Undirritaður leyfði sér óumbeðið að taka sér penna í hönd vegna sérstakrar virðingar við minningu Herdísar Þorvaldsdóttur, þáverandi formanns Landverndar, fyrir veittan stuðning við málstað okkar nokkurra félaga sem í 40 ár höfum árangurslaust leitað úrlausna vegna valdníðslu íslenskra embættismanna í svokölluðu Heiðarfjallsmáli.




Skoðun

Sjá meira


×