Skoðun

Snjallborg?

Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir skrifar
Koltvísýringur í andrúmsloftinu er að aukast, mikið til vegna útblásturs frá bruna á jarðefnaeldsneyti. En hvað erum við að gera í málunum? Nýtum við alla okkar krafta til að draga úr losun?

Í samgöngunum notumst við nánast alfarið við jarðefnaeldsneyti. Fjölmargir möguleikar eru í stöðunni til þess að draga úr losun frá samgöngum, sérstaklega vegna notkunar einkabíla innan borgarinnar. Af hverju gerum við einkabílnum svona hátt undir höfði þegar við vitum að það er ekki framtíðin? Það er hægt að gera miklu betur til þess að það verði jafn auðvelt að ganga og hjóla eins og að keyra bíl í borginni.

Í dag er bíllinn í fyrirrúmi alls staðar og tekur nánast allt pláss sem ætlað er undir samgöngur. Gangandi og hjólandi vegfarendur þurfa oft bíða lengi eftir að komast yfir á gatnamótum, fara langar krókaleiðir og sums staðar er bara alls engin almennileg aðstaða. Þessi séraðstaða fyrir einkabílinn endurspeglar ekki umhverfis- og heilsufars­kostnaðinn sem á honum hvílir. Í Noregi er oft vísað til þess að tappinn í umferðinni í dag sé tappinn í heilbrigðiskerfinu á morgun. Það er nokkuð til í því.

Til þess að draga úr losun á gróðurhúsaloftegundum þurfum við framsæknar aðgerðir. Aðgerðir sem geta haft fjölmargar jákvæðar afleiðingar í för með sér. Það þarf að hvetja fólk til að ganga og hjóla frekar en að letja fólk til þess. Gamal­dags fyrirmyndir í bæjarskipulagi þurfa að víkja fyrir framsæknu skipulagi sem gerir ráð fyrir því að einkabíllinn verði ekki skilgreindur sem aðal farkosturinn.

Í Evrópu er víða verið að gera stórtækar breytingar á reglugerðum um skipulagsmál. Mikið er byrjað að tala um svokallaðar „snjallborgir“. Snjallborg má skilgreina sem borg þar sem öll orkunotkun er í lágmarki, framleiðsla á endurnýtanlegri orku í hámarki og almenningssamgöngur og aðstaða fyrir hjólreiðamenn og gangandi vegfarendur í fyrirrúmi. Markvissar aðgerðir hafa verið gerðar bæði í stærri og minni bæjum, eins og til dæmis Þrándheimi í Noregi. Þar hefur tekist að draga úr losun frá samgöngum um tæplega 10% á örfáum árum. Þetta er gert með því að byggja markvisst upp hjólastíga, göngustíga og almenningssamgöngur.

En einnig er þetta gert með „pisk og gulrot“ eða refsingu og umbun. Þeir fá umbun sem velja hreinni valkosti í samgöngum og þeim gert erfiðara um vik sem velja að fara á einkabílnum í vinnuna. Með þessum aðgerðum skapast raunhæfur valgmöguleiki við einkabílinn. Sjúkdómseinkenni jarðar vegna loftslagsbreytinga eru orðin það alvarleg að við verðum að gera betur og vera snjöll á öllum sviðum, bæði fyrir umhverfið og heilsuna.




Skoðun

Sjá meira


×