Fótbolti

Pelle í launaflokki með Ronaldo, Messi, Neymar og Zlatan

Tómas Þór Þórðarso skrifar
Graziano Pelle var ákaft fagnað þegar hann kom til Kína.
Graziano Pelle var ákaft fagnað þegar hann kom til Kína. vísir/getty
Ítalski landsliðsframherjinn Graziano Pelle er að flytja frá Englandi til Kína en hann er genginn í raðir kínverska úrvalsdeildarliðsins Shandong Luneng frá Southampton.

Pelle, sem skoraði 23 deildarmörk í 68 leikjum fyrir Dýrlingana á tveimur tímabilum, kom til Southampton frá Feyenoord 2014 en áður spilaði hann á Ítalíu og með AZ í Hollandi.

Þessi þrítugi framherji fær mjög vel borgað fyrir sín störf í Kína. Svo vel borgað að hann er kominn í launaflokk með öllu stærri stjörnum en hann sjálfur er.

Samkvæmt götublaðinu The Sun fær Pelle 260.000 pund í vikulaun sem gerir 42 milljónir íslenskra króna. Hann er því með 168 milljónir í mánaðarlaun og árslaunin 2,2 milljarðar króna eða 13,5 milljónir punda.

Hann er sagður sjötti launahæsti leikmaður heims eftir nýja samninginn en bara stórstjörnur eins og Cristiano Ronaldo, Lionel Messi, Hulk, Neymar og Zlatan fá meira borgað en Pelle.

Ronaldo er launahæstur með 17 milljónir punda í árslaun og Messi fær 16,9 eins og Hulk. Neymar er sagður fá 16 milljónir punda á ári hjá Börsungum og Zlatan 13,5 hjá Manchester United sem er það sama og Pelle fær í Kína.

Pelle er nú fyrir ofan Thomas Müller, leikmann Bayern München, og Ezequiel Lavezzi sem einnig elti seðilinn til Kína en hann spilar með Hebei China Fortune.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×