Enski boltinn

Samherji Harðar Björgvins vill feta í fótspor Rashford

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tammy Abraham skorar og skorar.
Tammy Abraham skorar og skorar. vísir/getty
Hörður Björgvin Magnússon, landsliðsmaður í fótbolta, og félagar hans í Bristol City eru spútniklið tímabilsins í ensku B-deildinni það sem af er. Bristol er í fimmta sæti með 20 stig og er að spila vel.

Ein helsta ástæða þess að liðinu gengur svona vel er frammistaða framherjans Tammy Abraham sem er á láni frá Chelsea. Þessi 19 ára gamli strákur er markahæstur í B-deildinni með átta mörk en hann er búinn að skora ellefu mörk í fjórtán leikjum fyrir Bristol síðan hann kom frá Chelsea.

Abraham langar að feta í fótspor Marcus Rashford, framherja Manchester United, sem fékk tækifæri með aðalliði United og sló í gegn. Hann er nú fastamaður í landsliði Englands en þangað langar Abraham að komast sem og að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Chelsea.

„Marcus setur gott fordæmi fyrir yngri leikmenn. Hann er bara frábær leikmaður sem fékk tækifæri og er að þakka traustið,“ segir Abraham sem eins og Rashford skoraði tvö mörk í fyrsta byrjunarliðsleiknum með U21 árs landsliði Englands.

„Í hvert skipti sem þú færð tækifæri til að spila verðurðu að gefa allt sem þú átt og vonast til að fá að spila næsta leik,“ segir Tammy Abraham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×