Enski boltinn

Tottenham búið að kaupa markakónginn í Hollandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vincent Janssen og Ruud Van Nistelrooy.
Vincent Janssen og Ruud Van Nistelrooy. Vísir/Getty
Vincent Janssen er orðinn leikmaður enska úrvalsdeildarfélagsins sem kaupir hann frá AZ Alkmaar í Hollandi.

Enskir miðlar hafa heimildir fyrir því að Tottenham borgi hollenska félaginu sautján milljónir punda fyrir leikmanninn eða um 2,8 milljarða íslenskra króna.

Tottenham verður því bæði með markakóng ensku úrvalsdeildarinnar og markakóng hollensku úrvalsdeildarinnar í sínu liði á komandi tímabili.

Vincent Janssen er 22 ára gamall framherji sem skoraði 27 mörk í 34 leikjum með í hollensku deildinni á síðasta tímabili. Enski landsliðsframherjinn Harry Kane skoraði 25 mörk í 38 leikjum með Tottenham í ensku deildinni.

Janssen fékk einnig Johan Cruyff bikarinn sem efnilegasti leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar en það eru verðlaun sem fyrrum Tottenham-mennirnir Rafael van der Vaart og Christian Eriksen hafa báðir fengið.

Vincent Janssen hefur einnig byrjað vel með hollenska landsliðinu en hann hefur skorað 3 mörk í fyrstu 5 leikjum sínum en fyrsta markið hans kom í leik á móti enska landsliðinu á Wembley.

Vincent Janssen spilaði bara eitt tímabil með AZ Alkmaar en hann kom til liðsins fyrir ári síðan frá b-deildarliðinu Almere City.

Janssen spilaði með Feyenoord sem unglingur en fékk ekki samning hjá liðinu. Hann hefur heldur betur sýnt það og sannað að það var ekki rétt ákvörðun hjá þeim í Rotterdam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×