Enski boltinn

Ferguson reyndi að selja Ronaldo til Barcelona

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ferguson og Ronaldo léttir á æfingu.
Ferguson og Ronaldo léttir á æfingu. vísir/getty
Í nýrri bók blaðamannsins Guillem Balague um Cristiano Ronaldo, sem kemur út í næstu viku, kemur ýmislegt áhugavert fram.

Þar á meðal að Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóri Man. Utd, var ekki hrifinn af því að Ronaldo færi til Real Madrid. Hann reyndi að selja hann til Barcelona er hann sá fram á að missa leikmanninn.

Það var í janúar árið 2007, sex mánuðum eftir að Ramon Calderon var kosinn forseti Real, sem fyrst var haft samband við umboðsmenn Ronaldo. Real-menn fengu góð skilaboð. Ronaldo vildi fara frá Man. Utd.

Ronaldo staðfesti við fjölmiðla á þeim tíma að hann vissi um áhuga Real en hann mætti ekki tjá sig um málið. Þá fóru fjölmiðlar að sjálfsögðu á flug.

Ferguson sagði á sama tíma að það væri ekki möguleiki að Ronaldo færi frá félaginu.

Ferguson og Ronado fagna sigri í Meistaradeildinni.vísir/getty
Í mars sagði Ronaldo að allir vissu að hann elskaði Spán og ætlaði sér að spila þar einn daginn. Mánuði síðar var hann búinn að framlengja við Man. Utd en klausa var í samningnum að það mætti kaupa hann á 75 milljónir evra. Sú klausa var sett inn ef Real eða annað stórlið vildi kaupa hann. Það mátti þó enginn vita af þessari klausu og ríkti trúnaður um hana.

„Mér líkar ekki við ensk félög. Ég vil sjá son minn spila fyrir Real Madrid áður en ég dey,“ sagði móðir Ronaldo, Dolores, við spænska blaðið AS í janúar árið 2008. Þessi orð féllu í grýttan jarðveg hjá forráðamönnum Man. Utd.

Á þessum tíma var Real Madrid komið á fullt í að reyna að kaupa Ronaldo. Voru til í að greiða 120 milljónir evra en vissu engu að síður um klausuna upp á 75 milljónir evra.

Forráðamenn United skrifuðu þá bréf til forráðamanna Real þar sem þeir báðu félagið um að hætta að tjá sig um leikmanninn. Það sem United vissi ekki þá er að Ronaldo var til í að taka þátt í að setja pressu á United svo hann yrði seldur.

Sumarið 2008 var Ferguson orðinn reiður. Hann fór til Portúgal til þess að slátra tilboði Real. Hann var í valdabaráttu fyrir augum heimsins og vildi ekki tapa.

Er Ferguson varð ljóst að það væri ekki hægt að halda Ronaldo lengur í Manchester þá hafði hann samband við Barcelona og bað félagið um að bjóða í leikmanninn. Hann vildi alls ekki að Ronaldo færi til Real. Það skipti samt ekki máli því Ronaldo var búinn að ákveða að spila fyrir Real Madrid.

Baráttunni lauk svo fyrir leiktíðina 2009-10 er Ronaldo var seldur til Real fyrir metupphæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×