Skoðun

Fjölskylduferð til Tyrklands

Valgarður Reynisson skrifar
Á dögunum skrapp ég til Tyrklands með eiginkonu og tveimur ungum börnum. Það var skyndiákvörðun þar sem ferðaskrifstofan Nazar bauð upp á ódýrar ferðir sökum minnkandi aðsóknar. Vinir mínir kölluðu mig „ofurhuga“ fyrir að þora þessu og ömmurnar voru nokkuð áhyggjufullar. Ég ákvað hinsvegar að nýta mér tölfræðina til að komast að niðurstöðu. Fjöldi ferðamanna í Tyrklandi er yfir 30 milljónir á ári. Miðað við fjölda ferðamanna sem hafa látist í Tyrklandi síðastliðið ár voru líkurnar á að við kæmumst aftur lifandi heim meiri en 99,99%. Ég er ekki meiri ofurhugi en það.

Einhver nefndi við mig að það væri siðferðislega rangt að nýta sér hryðjuverk og stríðsástand til þess að komast ódýrt til sólarlanda. Það þóttu mér ágætis rök þar til ég áttaði mig á eftirfarandi: Ferðamannaiðnaðurinn er ein af undirstöðuatvinnugreinum Tyrklands.

Samdrátturinn í ár hefur verið 30-40% og gæti orðið enn meiri þegar árið er úti. Fækkun ferðamanna leiðir til atvinnuleysis og fátæktar sem er prýðisgóður jarðvegur fyrir reiði og öfgafull viðhorf af ýmsum toga. Þannig verður til vítahringur þar sem átök fækka ferðamönnum og fækkun ferðamanna leiðir til meiri átaka.

Það var svo aðra nóttina okkar í Tyrklandi að ein amman hringdi dauðskelkuð í okkur og fullyrti að það væri valdarán, stríð og útgöngubann í Tyrklandi. Ég svaf ekki mikið þá nóttina, kalda rökhyggjan og tölfræðin virtist hafa gufað upp í tyrknesku sólinni. Við vorum reyndar óravegu frá átakasvæðunum og ekkert í okkar umhverfi gaf nokkra hættu til kynna.

Ferðaskrifstofan og hótelstarfsfólk hélt okkur vel upplýstum. Þeir Tyrkir sem ég ræddi við virtust meira pirraðir á fíflalátunum í höfuðborginni en áhyggjufullir.

Ég efast um að ég fari aftur til Tyrklands á næstunni. Hótelið var flott, ferðaskrifstofan stóð sig vel, veðrið var gott og verðið enn betra. Framtíðarhorfur Tyrklands fara hinsvegar hratt versnandi. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi, ISIS, Kúrdar og einræðistilburðir Erdogans gera landið að tifandi tímasprengju. Það er samt ekki þess vegna sem ég sný ekki aftur. Þetta var bara svo skrambi langt ferðalag að þvælast í með tvö ung börn. En þið hin skulið endilega fara.




Skoðun

Sjá meira


×