Erlent

Ekki jafn snarpir og skjálftarnir 2011

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir stóran hluta eystri strandlengju Nýja-Sjálands. Flóðbylgjurnar reyndust minni en óttast var í fyrstu.
Flóðbylgjuviðvörun var gefin út fyrir stóran hluta eystri strandlengju Nýja-Sjálands. Flóðbylgjurnar reyndust minni en óttast var í fyrstu. Vísir/EPA
Gríðarsterkur jarðskjálfti, 7,8 að styrk, reið yfir Nýja-Sjáland í gær. Minnst tveir týndu lífinu í skjálftanum. Ekki er vitað um umfang skemmda á mannvirkjum í landinu að svo stöddu.

Skjálftinn reið yfir skömmu fyrir miðnætti að staðartíma. Upptök skjálftans voru á um fimmtán kílómetra dýpi skammt undan strönd suðureyjar Nýja-Sjálands. Eftirskjálftarnir hlaupa á tugum en þeir stærstu voru allt að 5,5 að styrk.





Hjörtur Kristinsson
„Þetta var allt öðruvísi en skjálftarnir í febrúar 2011,“ segir Hjörtur Kristinsson, íbúi í Christchurch, en borgin er um hundrað kílómetra suður af upptökum skjálftans. Skjálftinn þá var 6,3 að styrk en 185 létust í kjölfar hans og á annað þúsund slasaðist. „Nú hristist allt og skalf lengi. Þetta var eins og maður væri úti á rúmsjó. Hinir skjálftarnir voru mun snarpari.“

Eftir skjálftann var flóðbylgjuviðvörun gefin út og hús við strandlengjuna voru rýmd. Fyrstu viðvaranir almannavarna hljóðuðu upp á fimm metra háar öldur en þær stærstu reyndust vera á þriðja metra. Hjörtur var meðal þeirra sem þurftu að yfirgefa hús sitt.

„Svæðið var rýmt og það fær enginn að fara þangað inn. Lögreglumenn standa vaktina við alla innganga á svæðið og varna fólki að fara inn þar til flóðbylgjuhættan er liðin hjá. Það er háflóð núna svo það er beðið eftir því að það flæði út á ný,“ segir Hjörtur. Hann áætlar að um 20 þúsund manns við ströndina í Christchurch hafi þurft að yfirgefa heimili sín á meðan hættan líður hjá.

Óttast er að bæirnir Waiau og Kaikoura, sem er vinsæll ferðamannastaður, og nærliggjandi svæði hafi orðið verst úti í skjálftanum. Erfitt er að komast að svæðinu þar sem vegir eru víða í sundur. Þegar Fréttablaðið fór í prentun voru herþyrlur á leið á svæðið með björgunarfólk og neyðarhjálpargögn.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×