Þetta er rauði þráðurinn þegar stjórnmálaskýrendur eru spurðir um hver skilaboðin voru frá kjósendum á laugardaginn þegar litið er yfir sviðið í heild.

„Kannski eru þetta megin línurnar,“ segir Grétar. Þetta er ekki eindregin hægri eða vinstri sveifla. „Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir bæta við sig fylgi, en miðjan sem heild er líka að koma vel út. Þá má spyrja hvort ekki sé mögulegt að færa kjósendum hvoru tveggja. Í þessu felst kannski beiðni um að ljúka uppgjörinu við hrunið – bæði með ákveðnum hógværum breytingum á kerfinu en líka að halda þessum ávinningi sem við höfum vissulega náð – að klúðra honum ekki.“

Viðreisn – miðjuflokkur sem hallar sér til hægri – er í lykilstöðu, segir Baldur. Viðreisn hafi þó hafnað Píratabandalaginu og tali fyrir stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum og þriðja flokki öðrum en Framsóknarflokknum. „Björt framtíð kemur þá fyrst upp í hugann, en sú stjórn hefði aðeins 32 þingmenn sem er ekki sterk staða,“ segir Baldur. Viðreisn líti vissulega til Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna en slík stjórnarmyndun sé vart inni í myndinni fyrr en eftir nokkurra vikna stjórnarkreppu. Ástæðan er að grasrótin og flokksstofnanir Vinstri grænna standa í veginum en þá beri að hafa í huga „að í stjórnarkreppu leyfist mönnum meira,“ segir Baldur.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu