Innlent

Stútar á ferð og flugi í nótt

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Kolbeinn Tumi
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði fjölda ökumanna í nótt sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna og/eða áfengis. Í eitt skipti höfðu áhöfn sjúkrabíls afskipti af konu þar sem hún ók eftir Bústaðavegi. Hún var handtekin vegna gruns um ölvun við akstur. Þá barst lögreglunni ítrekaðar tilkynningar á níunda tímanum í gær vegna manns hafði ekið á kyrrstæða bíla í austurbænum og svo flúið. Hann fannst og var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna eða lyfja.

Samkvæmt dagbók lögreglunnar voru minnst minnst tíu stútar handteknir í nótt. Auk þess voru tveir menn handteknir vegna gruns um heimilisofbeldi.

Einn var stöðvaður á Kringlumýrarbraut þar sem hann ók á 138 kílómetra hraða, þar sem hámarkshraði er 80. Þá var annar ökumaður stöðvaður við Ögurhvarf á sjötta tímanum í gær. Sá gaf upp rangt nafn þegar hann var spurður, en hann er grunaður um að akstur undir áhrifum fíkniefna og hefur ítrekað ekið án réttinda. Annar var handtekinn eftir að hafa keyrt yfir gatnamót á rauðu ljósi. Sá var einnig réttindalaus þar sem hann hafði ekki endurnýjað ökuskírteini sitt.

Lögregluþjónar handtóku mann í annarlegu ástandi í nótt sem hafði brotist inn í íbúðarhúsnæði í miðbænum. Sá hafði skorist illa á fingri við innbrotið samkvæmt dagbók lögreglu og þurfti að beita varnarúða til að handtaka hann. Þar að auki var ungur maður í annarlegu ástandi handtekinn við veitingahús í Kópavogi í nótt.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um stuld á farsíma í nótt. Eigandi símans hafði verið á Álftanesvegi þegar par ók að honum og bað hann um að fá að hringja eitt símtal. Hann rétti þeim símann sinn, en þau óku þá af stað með símann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×