Vésteinn segir markmið flokksins ekki endilega að koma manni á þing heldur að koma málstað hans á framfæri.
„Við erum ekki kommúnistaflokkur. Ég er kommúnisti og Þorvaldur Þorvaldsson, formaður flokksins, er líka kommúnisti, en flokkurinn er ekki kommúnistaflokkur. Það er vegna þess að ef við tölum um merkingarbæra merkingu þess orðs þá er kommúnistaflokkur miklu strangara fyrirbæri sem gerir meiri kröfur um sömu lífsskoðunina, sömu lífssýnina og mun djúpstæðari hugmyndafræðilega samheldni en Alþýðufylkingin er með,“ sagði Vésteinn í beinni útsendingu í Kosningaspjalli Vísis í morgun.
„Við skerum okkur úr frá öðrum flokkum því tilvera okkar hangir ekki á því hvort við erum inni á þingi eða ekki. Við höfum starfað frá 2013, fyrir utan þings allan þann tíma, en samt starfað ótrauð. Við höfum bara byggt okkur upp og sótt í okkur veðrið og ef við fáum ekki fólk kjörið inn á þing þá fáum við það bara næst. Við stefnum allavega að því og að ná fólki kjörnu inn á þing er auk þess ekki nema hluti af takmarki okkar. Það er líka að koma málstað okkar fyrir augu og eyru kjósenda.“
Viðtalið við Véstein má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en hér fyrir neðan má einnig sjá færsluna af Facebook-síðu Vísis þar sem lesendur gátu spurt spurninga.
Kosningaspjall Vísis er hluti af ítarlegri umfjöllun fréttastofu 365 fyrir komandi alþingiskosningar, 29. október næstkomandi. Áhorfendum gefst kostur á að spyrja frambjóðendur spurninga í gegnum Facebook-síðu Vísis á meðan útsendingu stendur. Íslenska þjóðfylkingin verður til viðtals klukkan 13.30 á morgun.
Kosningaspjall Vísis: AlþýðufylkinginVésteinn Valgarðsson oddviti Alþýðufylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður mætti í beina útsendingu í fyrsta þætti Kosningaspjalls Vísis. Útsending hefst þegar um 16:30 mínútur eru liðnar af myndskeiðinu hér að neðan.
Posted by Vísir.is on Monday, October 10, 2016