Skoðun

Slökkvum á tölvunni og hittumst

Anna Þyrí Halldórsdóttir skrifar
Samskipti eru mjög mikilvæg fyrir fólk á öllum aldri. Þau birtast á mörgum sviðum svo sem þegar kemur að menntun, atvinnu, tjáningu og fleira. Með samskiptum getur maður miðlað upplýsingum og þekkingu sinni til annarra og aðrir gert hið sama á móti. Léleg samskipti geta valdið miklum vandræðum á mörgum stöðum og er því æskilegt að þau haldist góð. Dæmi um staði þar sem reynir á samskipti eru vinnustaðir, skóli, heimili og á milli landa og ríkja í heiminum. Samskiptafærni manna getur verið mjög mismunandi og sumir eiga jafnvel mjög erfitt með að hafa samskipti á einhvern hátt. Enginn vafi leikur þó á mikilvægi góðra samskipta.

Samskipti milli unglinga hafa breyst mikið með tímanum og sérstaklega á síðustu árum. Ég held að stór hluti af þessari breytingu á samskiptunum sé vegna nýjunga í tækni og aukinnar raftækjanotkunar hjá unglingum jafnt sem hjá fullorðnum. Til eru allskonar forrit sem gera manni keift að hafa samskipti í gegnum netið. Sjálf notast ég mikið við samskiptamiðla daglega og eru margir kostir sem fylgja þeim. Þó það séu margir kostir við þá eru líka einhverjir sem eru ekki eins góðir. Mér finnst að unglingar í mínu umhverfi reiði sig of mikið á netmiðla og of lítið á bein samskipti við hvern annan. Eftir því sem ég verð eldri finn ég fyrir því hvernig samskiptin breytast og hvernig netið er sífellt stærri og stærri hluti af samskiptum mínum við jafnaldra mína. Núna notast unglingar við netið bæði til þess að hafa jákvæð samskipti en einnig neikvæð. Mér finnst til dæmis að unglingar noti samskiptamiðlana mikið til þess að tala niðrandi um hvern annan sem þeir myndu ekki gera utan netheimsins. Það er eins og sumum unglingum finnist orðið erfitt að hafa bein samskipti við jafnaldra sína og leita því til samskiptamiðlanna í staðinn. Það er ekki gott. Slökkvum á tölvunni og hittumst.

Yfir höfuð finnst mér samskiptamiðlar mjög sniðugir og mikið af góðum kostum sem fylgja þeim. En þeir hafa líka neikvæðar hliðar eins og t.d. niðrandi tal milli fólks. Unglingar nota samskiptamiðlana að mínu mati alltof mikið í stað beinna samskipta við hvert annað. Góð samskipti eru mikilvægari en margir halda. Því er mikilvægt að þau haldist eins góð og þau mögulega geta.

Heimildir:

https://is.wikipedia.org/wiki/Samskipti

https://www.lausnin.is/?p=1734




Skoðun

Sjá meira


×