Erlent

Facebook hannar ritskoðunartól til að komast inn á Kínamarkað

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flestir netnotendur heims eru í Kína.
Flestir netnotendur heims eru í Kína. Vísir/Getty
Facebook hefur hannað sérstakt ritskoðunartól til þess að fá stjórnvöld í Kína til þess að aflétta banni á notkun Facebook þar í landi. Bannið hefur verið í gildi í sjö ár.

Tólið virkar þannig að það kemur í veg fyrir að Facebook-færslur birtist hjá notendum sem staðsettir eru á ákveðnu landssvæði. Tólið eyðir hins vegar ekki færslunum, það kemur aðeins í veg fyrir sýnileika þeirra.

Samkvæmt frétt New York Times um málið var ritskoðunartólið hannað með vitund og stuðningi Mark Zuckerberg, stofnanda og forstjóra Facebook.

Talsmaður Facebook segir að fyrirtækið hafi lengi horft til Kína en ekkert hafi verið ákveðið varðandi það hvernig Facebook ætlaði sér að fá yfirvöld í Kína til að aflétta banninu á Facebook.

Facebook var bannað árið 2009 eftir óeirðir þar sem 140 létust. Flestir netnotendur heims eru í Kína og því ljóst að til mikils er að vinna takist Facebook að ná fótfestu á nýjan leik þar í landi.

Ekkert bendir til þess að Facebook hafi veitt kínverskum yfirvöldum aðgang að tólinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×