Innlent

Strandaglópar í Keflavík eftir að hafa ekki getað lent á Reykjavíkurflugvelli

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Flugvélin gat ekki lent í Reykjavík.
Flugvélin gat ekki lent í Reykjavík. Mynd/Flugfélag Íslands
Flugvél á vegum Flugfélags Íslands sem var á leið til Reykjavíkur frá Egilsstöðum í kvöld þurfti frá að hverfa vegna hliðarvinda og þurfti þess í stað að lenda í Keflavík. Farþegar þurftu að bíða í flugvélinni og í flugvallarrútu í hálfa aðra klukkustund á meðan flugfélagið ákvað hvernig þeim yrði komið til Reykjavíkur.  

Samkvæmt upplýsingum frá Árna Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Flugfélags Íslands, er ekki algengt að ókleyft sé að lenda flugvélum á Reykjavíkurflugvelli vegna slíkra hliðarvinda.

„Aðstæður hafa verið mjög slæmar undanfarna daga“ segir Árni en miklar tafir hafa orðið á innanlandsflugi undanfarna daga.

Tvær aðrar vélar frá Flugfélagi Íslands sem einnig flugu frá Egilsstöðum til Reykjavíkur í kvöld gátu hins vegar lent á Reykjavíkurflugvelli vandkvæðalaust. Árni segir að vindar hafi þá einfaldlega verið orðnir hagstæðir.

Ferðalagið tók fjóra tíma

Í samtali við Vísi segir Bobby Gaenfler, farþegi um borð í vélinni, að farþegar hefðu margir hverjir verið orðnir óþreyjufullir í biðinni og að upplýsingum frá flugfélaginu hefði verið ábótavant.

„Við vorum mjög glöð þegar við lentum heil á húfi en svo vorum við færð um borð í rútu þar sem við sátum í heila eilífð, þaðan sem við vorum keyrð að hliðinu þar sem við þurftum aftur að bíða“ segir Bobby sem tekur fram að þar hafi biðinni ekki lokið.

„Þá vorum við keyrð aftur að flugvélinni þar sem meiri bið tók við þar til við vorum loksins keyrð að hliðinu þar sem rútur til Reykjavíkur biðu okkar. Þá átti eftir að afferma flugvélina.“ segir Bobby sem var ekki viss um hve löng biðin hafi verið en taldi að farþegar hafi þurft að bíða í að minnsta kosti klukkustund.

Sjálf hafi hún ekki verið komin á áfangastað fyrr en rétt eftir klukkan tíu í kvöld, fjórum klukkustundum eftir að hafa lagt af stað. Flugtíminn á milli Reykjavíkur og Egilsstaða er 60 mínútur. 

Að sögn Árna skýrist biðin af töfum þjónustuaðila Flugfélags Íslands.

„Það varð töf í Keflavík á því að fá rútur vegna þess að það tók þjónustuaðilann okkar lengri tíma að fá þær á staðinn en áætlað hafði verið og við biðjumst að sjálfsögðu velvirðingar á því.“

Ekki hefði verið hægt að fljúga vélinni til Reykjavíkur frá Keflavík vegna of sterkra vinda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×