Fótbolti

Allt gengur upp hjá Brendan Rodgers í Skotlandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brendan Rodgers.
Brendan Rodgers. Vísir/Getty
Celtic vann í gær fjórtánda leikinn sinn í röð í skosku úrvalsdeildinni og hefur nú sextán stiga forskot á toppi deildarinnar.

Celtic vann 2-0 sigur á Ross County þökk sé mörkum frá Erik Sviatchenko og Stuart Armstrong en þau komu bæði á síðustu sjö mínútunum í fyrri hálfleiknum.

Það er óhætt að segja að fyrrum stjóri Swansea og Liverpool hafi ástæðu til þess að brosa þessa dagana.

Brendan Rodgers yfirgaf enska boltann með skottið á milli lappanna eftir að Liverpool rak hann 4. oktbóer 2015 en hann hefur heldur betur átt endurnýjun lífdaga í skosku höfuðborginni.

Rodgers tók við liði Celtic af Ronny Deila strax eftir síðasta tímabil og byrjaði ekki vel þegar liðið tapaði 1-0 á móti liði Lincoln frá Gíbraltar í forkeppni Meistaradeildarinnar.

Liverpool vann 50 prósent leikja sinna undir stjórn Brendan Rodgers (83 af 166) og á undan stýrði hann Swansea til sigurs í 45 prósent leikjanna (43 af 96).

Hjá Celtic hefur Brendan Rodgers aftur á móti fagnað sigri í 25 af 35 leikjum sínum eða 71 prósent leikjanna.

Brendan Rodgers er einnig búinn að finna sinn fyrsta titil á stjóraferlinum í vetur en Celtic varð enskur deildabikarmeistari með 3-0 sigri á Aberdeen í lok nóvember.

Titlarnir verða nær örugglega fleiri í vetur. Liðið hefur aðeins tapað stigum í einum leik (2-2 jafntefli við Inverness CT í september) og þannig unnið 18 af 19 deildarleikjum tímabilsins.

Næsti leikur liðsins er á móti nágrönnunum og erkifjendunum í Rangers á útivelli á Gamlársdag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×