Innlent

Tannlækningar fyrir öll börn á aldrinum 3 – 17 ára verða ókeypis eftir áramót

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Samningurinn verður innleiddur að fullu árið 2018.
Samningurinn verður innleiddur að fullu árið 2018. vísir/getty
Eftir áramót munu Sjúkratryggingar Íslands greiða tannlæknakostnað allra barna á aldrinum þriggja til sautján ára að fullu. Mbl.is greindi fyrst frá. 

Um er að ræða innleiðingu næstsíðasta áfanga samnings um tannlækningar barna, sem tók gildi árið 2013 og hefur verið innleiddur í áföngum. Þetta kemur fram á vef Sjúkratrygginga Íslands

Gildistakan nú 1. janúar hefur það í för með sér að nú verða tannlækningar 4 til 5 ára barna gjaldfrjálsar en þær voru það ekki áður.

Til þess að tryggja það að Sjúkratryggingar Íslands greiði tannlæknakostnað barna þurfa foreldrar að skrá barn sín eða börn í Réttindagátt Sjúkratrygginga Íslands. Foreldrar geta einnig óskað þess að tannlæknir sjái um skráninguna.

Á vef Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að samningurinn taki strax til allra barna í bráðavanda sem búa við félagslegar aðstæður, óháð aldri.

Síðasti áfangi samningsins verður innleiddur 1. janúar 2018 og tekur hann til tannlækninga barna yngri en þriggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×