Innlent

Hjartagátt LSH yfirfull

Sveinn Arnarsson skrifar
Hjartadeild Landspítala.
Hjartadeild Landspítala.
„Það var mjög mikið að gera í gær eftir jólahátíðina og Hjartagáttin full. Í nokkrum tilvikum hafa einstaklingar farið óvarlega í saltan mat og þá fengið hjartabilun en einnig erum við að sjá alls kyns tilfelli núna eftir jólin,“ segir Karl Andersen, yfirlæknir á Hjartagátt Landspítalans.

Hjartagáttin tekur við einstaklingum með hjartabilun eða ef grunur leikur á að um hjartatengda sjúkdóma sé að ræða. Karl segir að yfir sjálfa hátíðardagana, aðfangadag og jóladag, fækki tilfellum til muna. Hins vegar hafi mikið verið að gera bæði fyrir jólin og í gær.

Karl Andersen
„Við sáum mikla aukningu fyrir jólin. Þá voru að koma inn tilfelli sem má rekja til streitu og kvíða og spennueinkenna. Það leiðir af sér hjartsláttartruflanir og vanlíðan. Hjartatruflanir af því tagi má tengja stressi vegna jólahátíðarinnar,“ segir Karl. „Nú erum við að fá tilfelli af ýmsum toga inn til okkar, til að mynda tvær bráðakransæðaaðgerðir í nótt og einnig hafa tilfelli komið inn vegna seltu í mat.“

Að mati Karls eiga einstaklingar með undirliggjandi hjartveiki að forðast saltan mat. Þótt matur sé ekki eins saltur og hann var getur vökvasöfnunin vegna saltneyslu skapað erfiðleika fyrir hjartað sem vöðvinn ræður ekki við. Að öðru leyti telur Karl saltneysluna ekki vera mikið vandamál fyrir íslenskan almenning.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×