Erlent

Árásirnar í Köln: Einungis tveir hinna grunuðu frá Sýrlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Árásirnar leiddu til mikillar umræðu um stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara í flóttamannamálum.
Árásirnar leiddu til mikillar umræðu um stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara í flóttamannamálum. Vísir/AFP
Saksóknari í Þýskalandi segir að flestir þeirra sem grunaðir eru um árásir í miðborg Kölnar á nýársnótt séu frá Alsír og Marokkó.

Árásirnar vöktu mikil viðbrögð og umræðu bæði í Þýskalandi og annars staðar í Evrópu en þar sögðust um hundrað konur hafa orðið fyrir kynferðisárás, verið áreittar og rændar.

Tilkynningar sem borist hafa lögreglu eru nú 1.054 talsins og snúa 454 þeirra að kynferðisárásum, en sex hundruð að vasaþjófnaði og ránum. Saksóknarinn Ulrich Bremer greinir frá þessu í samtali við Die Welt.

Flestir frá Alsír og Marokkó

Í frétt Verdens Gang um málið kemur fram að talsmenn lögreglu í Köln höfðu áður sagt rannsóknina fyrst og fremst beinast að hópi hælisleitenda og ólöglegra innflytjenda í landinu.

Af þeim 59 sem nú eru grunaðir um árásirnar koma 25 frá Alsír, 21 frá Marokkó, þrír frá Túnis, þrír frá Þýskalandi, tveir frá Sýrlandi, einn frá Írak, Líbíu, Íran og Svartfjallalandi.

Die Welt greinir frá því að alls hafi þrettán manns verið hnepptir í gæsluvarðhald vegna árásanna á nýársnótt og eru fimm þeirra grunaðir um kynferðisbrot.

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands.Vísir/AFP
Ekki tengja alla inflytjendur við glæpi fámenns hóps

Heiko Maas, dómsmálaráðherra Þýskalands, sagði í síðasta mánuði að hann taldi þær hafa verið skipulagðar. „Þegar svo mikill fjöldi manna kemur saman og fremur glæpi, þá getur ekki verið að um tilviljun sé að ræða, heldur hefur þetta á einn eða annan hátt verið fyrirfram ákveðið. Það fer enginn að segja mér að þetta hafi ekki verið undirbúið,“ sagði Haas í síðasta mánuði.

Ráðherrann lagði þó mikla áherslu að ekki skuli tengja alla innflytjendur eða hælisleitendur við glæpaverk fámenns hóps.

Dreift á samfélagsmiðla

Nýráðinn lögreglustjóri í Köln, Jürgen Mathies, segir nú að hann hann telji árásirnar á nýársnótt ekki tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, heldur hafi mannfjöldinn komið saman eftir eftir að auglýsingum var dreift á samfélagsmiðlum. „Einhverjir eiga meira að segja að hafa sagt: „Hæ, förum til Kölnar, þar verður mikið partý“,“ segir hann í samtali við Die Welt.

Árásirnar leiddu til mikillar umræðu um stefnu Angelu Merkel Þýskalandskanslara í flóttamannamálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×