Skoðun

Hugverkaréttindi eru verðmæti og viðskiptatæki

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Nýlega kynnti ég hugverkastefnu fyrir Ísland en hún fjallar um vernd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar; þau eru vörumerki, einkaleyfi, hönnunarskráningar og önnur skyld réttindi.

Markmið stefnunnar er hugverkadrifið Ísland árið 2022 og sú framtíðarsýn er sett fram í skjalinu ásamt því að veita upplýsingar um réttindin, mikilvægi þeirra og mögulegar verndarleiðir ásamt aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. Stefnan er afrakstur vinnu starfshóps sem í áttu sæti fulltrúar frá Einkaleyfastofunni, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Félagi umboðsmanna vörumerkja og einkaleyfa og Félagi einkaleyfasérfræðinga.

Hugverkaréttindi eru fyrst og fremst verðmæti og viðskiptatæki en flest öll verðmætustu fyrirtæki í heimi byggja velgengni sína á skipulagðri stefnu um vernd hugverka og skráningu hugverkaréttinda. Sem dæmi má nefna erlend stórfyrirtæki eins og Google, Apple, Samsung og Microsoft, en hér á landi má til dæmis benda á Össur, Marel, Orf líftækni og Bláa lónið.

Velgengni þessara fyrirtækja má að talsverðu leyti þakka kerfisbundinni verndun hugverkaréttinda allt frá stofnun þeirra. Flestar tegundir hugverka er nauðsynlegt að skrá svo réttindin fáist viðurkennd, en við það skapast verðmætur eignarréttur.

Atvinnulíf nútímans byggir í stöðugt meiri mæli á hugviti og þekkingu. Fyrir fáum árum kom fram í bandarískri rannsókn að 34,8 prósent af vergri landsframleiðslu Bandaríkjanna árið 2010 hefði mátt rekja til hugverkaréttindatengdrar starfsemi sem skapaði 27,1 milljón starfa.

Innan Evrópusambandsins sýndi könnun frá árinu 2013 að 39 prósent af vergri landsframleiðslu Evrópusambandsríkjanna árið 2008-2010 mætti rekja til fyrirtækja sem byggðu beint á hugverkaréttindum. Nýleg rannsókn Evrópusambandsins sýnir jafnframt að fyrirtæki sem eiga og beita hugverkum sýna meiri hagnað á hvern starfsmann, eru með fleiri starfsmenn og greiða hærri laun.

Staða Íslands hvað varðar einkaleyfa- og hönnunarskráningar er töluvert lakari en bæði í Evrópu og Bandaríkjunum en skráningum hefur fækkað nokkuð á síðustu árum. Þetta veldur áhyggjum, þar sem þróunin helst ekki í hendur við aukna velmegun hér á landi og öfluga frumkvöðlastarfsemi. Með stefnunni viljum við snúa þessari stöðu við og við ætlum að efla vitund og skilning á hugverkaréttindum, mikilvægi þeirra og möguleikum til verndar hvort sem er með skráningu eða á annan hátt. Við viljum sjá frekari menntun og rannsóknir á sviði hugverkaréttinda. Einnig er með stefnunni stefnt að skilvirku stjórnkerfi og einfaldara lagaumhverfi.

Árið 2020 viljum við sjá sterka vitund um hugverkaréttindi á sviði iðnaðar, áhrif þeirra á verðmæti fyrirtækja og mikilvægi réttindanna í allri þróun, rannsóknum og nýsköpun.

Samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs byggist á því. Lögð verður áhersla á mikilvægi verðmætasköpunar sem byggist á uppfinningum og þekkingu úr rannsóknarstarfi. Opinbert stuðningskerfi við frumkvöðla sem og lítil og meðalstór fyrirtæki er öflugt á Íslandi. Við eigum því alla möguleika á því að komast í fremstu röð á þessu sviði sem öðrum.

Ég hvet alla áhugasama til að kynna sér hugverkastefnuna, en hana má finna á vef ráðuneytisins á www.anr.is.




Skoðun

Sjá meira


×