Ólafur Arnalds tónlistarmaður hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin, sem afhent voru við hátíðlega athöfn á Kjarvalsstöðum um helgina. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin sem eru áletraður gripur úr áli og verðlaunafé að fjárhæð ein milljón króna.
Ólafur Arnalds lét þess getið í þakkarávarpi sínu að verðlaunaféð myndi renna til hljóðfærakaupa fyrir Barna- og unglingageðdeild Landspítalans.
Íslensku bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem afhent hafa verið árlega síðan 1981 og voru í upphafi kennd við upphafsmann sinn, Danann Peter Bröste, en álverið í Straumsvík hefur verið bakhjarl þeirra síðan Peter dró sig í hlé.
Í dómnefnd eru Vigdís Finnbogadóttir, Þórunn Sigurðardóttir, Örnólfur Thorsson og Rannveig Rist.
Innlent