Erlent

Þúsundir mótmæla umdeildu frumvarpi um barnaníð

Samúel Karl Ólason skrifar
Þúsundir kvenna mótmæltu á götum Istanbúl í dag.
Þúsundir kvenna mótmæltu á götum Istanbúl í dag. Vísir/AFP
Þúsundir komu saman í Istanbúl í Tyrklandi í dag til að mótmæla mjög svo umdeildu frumvarpi um barnaníð. Verði frumvarpið samþykkt geta menn sem hafa nauðgað börnum sloppið við refsingu með því að giftast börnunum. Ríkisstjórnin heldur því fram að frumvarpinu sé ætlað að sporna gegn giftingum barna og segja gagnrýnina byggða á misskilningi.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni myndi frumvarpið gera mönnum kleift að vera náðaðir ef þeir höfðu mök við börn „án valdbeitingar, hótana eða annarskonar takmörkunum á samþykki“. Samræðisaldur er 18 ára í Tyrklandi en giftingar barna eru vandamál víða í landinu.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna hefur lýst yfir „verulegum áhyggjum“ vegna frumvarpsins. Gagnrýnendur segja að frumvarpið muni lögleiða barnaníð og giftingar barna.

Samkvæmt BBC hefur ofbeldi gegn konum aukist í Tyrklandi á síðasta áratug og að nú segist um 40 prósent kvenna í þjóðinni hafa orðið fyrir kynferðislegu- eða líkamlegu ofbeldi. Þá fjölgaði morðum á konum um 1.400 prósent frá 2003 til 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×