Erlent

Vippaði sér úr handjárnunum og stal lögreglubílnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Toscha Fay Sponsler var handtekin fyrir þjófnað í snyrtivöruverslun.
Toscha Fay Sponsler var handtekin fyrir þjófnað í snyrtivöruverslun.
Lögreglan í Lufkin í Texas birti í gær myndband af konu sem búið var að handtaka og setja í aftursæti lögreglubíls. Konunni tókst að losa sig við handjárnin, skríða í bílstjórasætið og keyra á brott áður en lögregluþjónum tókst að stöðva hana. 

Konan leiddi fjölda lögregluþjóna í 23 mínútna langa eftirför á allt að 160 kílómetra hraða þar til hún keyrði út af.

Konan sem heitir Toscha Fay Sponsler og er 33 ára gömul hafði verið handtekin fyrir þjófnað í snyrtivöruverslun, samkvæmt frétt NBC News. Í færslu lögreglunnar, sem fylgdi myndbandinu, segir að lögregluþjónar sem veittu henni eftirför hafi séð hana ítrekað reynt að ná haglabyssu lausri sem var læst föst í bílnum.

Lögregluþjónarnir brutu svo rúðu bílsins og drógu Sponsler út og handjárnuðu hana aftur.

Myndbandið sem lögreglan birti í gær endar á því að lögregluþjónn er að ganga úr skugga um að enginn geti troðið sér aftur í framsæti lögreglubíls. Kassamerkið #Foolmeonce fylgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×