Innlent

Lagt hald á talsvert magn fíkniefna sem ætlað var til dreifingar á Litla-Hrauni

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Litla-Hraun.
Litla-Hraun. Vísir/Eyþór
Lagt var hald á talsvert magn fíkniefna í fangelsinu Litla-Hrauni liðna helgi. Þetta staðfestir Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður fangelsisins í samtali við fréttastofu Vísis. Efnin sem um ræðir eru LSD og spice.

„Það fannst ætlað LSD í fórum fanga á fangaklefa, í það miklu magni að því er klárlega ætlað frekari dreifingar heldur en einkaneysla eins fanga. Í tengslum við þann fund fór fram leit í klefa hjá öðrum fanga þar sem fannst ætlað spice,“ segir Halldór.

Þessi mál hafa þegar verið send til lögreglu og á rannsóknarstofu til greiningar. Magntölur liggja ekki nákvæmlega fyrir ennþá en þessi mál eru í stærra lagi miðað við þau mál sem hafa komið upp á síðastliðnum mánuðum.

Hann segir að allur gangur sé á því hvernig lyfin berast inn í fangelsið. „Þekktu leiðirnar eru þegar þetta er borið innvortis þegar fangar fara út fyrir fangelsið í lögmætum erindagjörðum eða þegar einhverjir sem eiga leið inn í fangelsið bera þetta.“

Fíkniefnaleitir eru framkvæmdar af og til innan veggja fangelsisins. Halldór segir tilgang þeirra misjafnan. „Leitir eru hluti af reglubundnu eftirliti en eru einnig framkvæmdar vegna gruns um notkun efnanna eða vegna ástands fanga. Það er metið hverju sinni hvernig þetta er gert. Starfsmenn á vakt sinna þessu síðan.“

Agaviðurlög í höndum forstöðumanns

„Þegar fíkniefni finnast í fangelsinu eru þau send til lögreglu og lögregla annast rannsókn málsins. Það er í höndum lögreglu að ákveða hvort ákært er í málinu eða ekki. Þá eiga menn að sjálfsögðu á hættu að fá dóm fyrir slíkt, það er að segja vörslu fíkniefna,“ segir Halldór og bendir á að þetta sé vitaskuld brot á fangelsisreglum og sé því heimilt að beita fanga agaviðurlögum.

„Það er í höndum forstöðumanns í hverju fangelsi.“

Fréttablaðið fjallaði um fíkniefnið „spice“ í fyrra en það hafði þá verið í umferð innan veggja fangelsisins. Það getur litið alla vega út en líkist yfirleitt kaffikorgi eða kryddi og dregur það nafn sitt þaðan.

Sjá einnig:Spice nýja tískudópið á Litla-Hrauni




Fleiri fréttir

Sjá meira


×