Innlent

Framsóknarmenn alsælir með sáttmálann

Jakob Bjarnar skrifar
Framsóknarmenn ætla að koma saman í Bændahöllinni, hafa það huggulegt og leggja blessun sína yfir stjórnarsáttmálann.
Framsóknarmenn ætla að koma saman í Bændahöllinni, hafa það huggulegt og leggja blessun sína yfir stjórnarsáttmálann. visir/anton brink
Samkvæmt heimildum Vísis mun stjórnarsáttmálinn nýi verða samþykktur innan Framsóknarflokksins án þess að þar muni nokkur svo mikið sem depla auga.

Að sögn eins Framsóknarmanns sem Vísir ræddi við stendur til að samþykkja þetta annað kvöld; við ætlum að koma saman í Bændahöllinni klukkan átta og hafa það huggulegt, sagði einn viðmælandi Vísis úr innsta hring.

Nýr stjórnarsáttmáli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks liggur fyrir og hefur verið kynntur þingflokkunum. Næsta skref er að flokksráð flokkanna taki sáttmálann til athugunar og samþykktar eða synjunar eftir atvikum. Sá er fyrirvarinn sem Katrín slær í samtölum við fréttamenn en reyndar láta fáir sér það til hugar koma að stjórnarsáttmálinn verði ekki samþykktur á þeim vettvangi.

VG-liðar munu líklega kyngja óánægju sinni

Augu manna hafa einkum beinst að Vinstri grænum og bullandi óánægju innan VG með þetta væntanlega stjórnarsamstarf. Þó sú ánægja grundvallist á einhverju allt öðru en því sem mun koma fram í stjórnarsáttmálanum mun flokksráðið ekki gera neitt sem kemur sér illa fyrir formanninn. Vísbendingar um slíkt mátti sjá í könnun sem sérlegur hópur stuðningsmanna Katrínar, sem jafnframt tilheyrir flokkráðinu, kynnti til sögunnar í gær.

Flokksráðið kemur saman klukkan 17 á morgun, á Grand Hótel, og er ráðgert að fundað verði til klukkan 21 þá um kvöldið.

Sjálfstæðismenn fylgja sínum formanni í blíðu og stríðu

Sjálfstæðismenn munu einnig koma saman til að fjalla um nýjan stjórnarsáttmála á sínum vettvangi en ekki er búist við öðru en sáttmálinn verði samþykktur. Þó hugsanlega standi það í einhverjum flokkshollum Sjálfstæðismanninum að þetta mun meðal annars þýða það að Steingrímur J. Sigfússon, sem lengi hefur verið einn höfuðandstæðingur þeirra, muni nú leiddur í vegs og virðingar. En, flokksmenn munu ekki gera neitt sem kemur formanni þeirra í bobba.

En, Framsóknarmenn munu hins vegar ekki hafa neitt við stjórnarsáttmálann að athuga og búa sig undir notalega kvöldstund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×