Fótbolti

PSG búið að ganga frá kaupum á Draxler

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Julian Draxler með treyju PSG. Hann verður ekki númer 2021
Julian Draxler með treyju PSG. Hann verður ekki númer 2021 mynd/psg
Frakklandsmeistarar Paris Saint-Germain eru búnir að ganga frá fyrstu stórkaupum janúargluggans í Evrópu en félagið tilkynnti í dag kaup á þýska miðjumanninum Julian Draxler.

Þessi 23 ára gamli leikmaður kemur til PSG frá Wolfsburg í Þýskalandi en hann kostar Frakklandsmeistarana 36 milljónir evra eða því sem nemur 4,3 milljörðum íslenskra króna.

Draxler hefur um langa hríð verið í sigti Arsene Wenger hjá Arsenal en síðustu vikur hefur hann verið sterklega orðaður við PSG sem er nú búið að semja við Þjóðverjann út leiktíðina 2021.

Draxler komst ungur til metorða hjá Schalke þar sem hann þreytti frumraun sína 17 ára gamall árið 2011 en Wolfsburg keypti hann í ágúst árið 2015. Hann spilaði 34 leiki fyrir Wolfsburg og skoraði fimm mörk í þýsku 1. deildinni.

Miðjumaðurinn ungi spilaði fyrsta landsleikinn sinn fyrir Þýskaland árið 2012 en hann á nú 27 landsleiki að baki og þrjú landsliðsmörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×