Erlent

Óskarsakademían heldur neyðarfund vegna Weinstein

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Liðlega 20 konur hafa stigið fram og sakað Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi.
Liðlega 20 konur hafa stigið fram og sakað Harvey Weinstein um kynferðislega áreitni og ofbeldi. Vísir/Getty

Bandaríska kvikmyndaakademían, sem meðal annars úthlutar Óskarsverðlaununum ár hvert, mun boða til neyðarfundar til að ræða framtíð kvikmyndaframleiðandans Harvey Weinstein. Fjölmargar konur hafa stigið fram á undanförnum dögum og sakað hann um kynferðisofbeldi og áreitni, þeirra á meðal leikkonurnar Gwyneth Paltrow og Angelina Jolie. Eiginkona Weinstein, Georgina Chapman, hefur jafnframt yfirgefið hann og sagt gjörðir hans vera ófyrirgefanlegar. Þá var honum um liðna helgi vikið frá störfum sem stjórnarformaður The Weinstein Company.



Á vef breska ríkisútvarpsins er haft eftir akademíunni að henni þyki ásakanirnar á hendur Weinstein vera viðurstyggilegar. Muni hún því funda um stöðu hans innan akademíunnar og taldar eru líkur á að aðild hans verði afturkölluð.



Áætlað er að fundað verði á laugardag til að „ræða ásakanirnar og aðgerðir sem akademían getur gripið til.“ Hún hefur alls veitt kvikmyndafyrirtækjum Weinstein, Miramax og Weinstein Company, 81 Óskarsverðlaun í gegnum árin.



Sjá einnig: Cara Delevingne opnar sig um hræðilega reynslu sína af Weinstein



Bafta, breska kvikmyndaakademían, greindi frá því í gær að hún hefi ógilt aðild hans.



Weinstein hefur ætíð lýst yfir sakleysi sínu í málinu, þrátt fyrir að The New Yorker hafi birt hljóðupptöku á dögunum þar sem greinilega má heyra hann áreita unga fyrirsætu.



Þá hefur lögreglan í New York reynt að ná tali af manneskju í tengslum við ásakanir á hendur Weinstein sem ná til ársins 2004. Lögreglan vildi ekki greina BBC nánar frá ástæðum þessa.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×