Erlent

Otto Warmbier er látinn

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Otto Warmbier í Norður-Kóreu.
Otto Warmbier í Norður-Kóreu. Vísir/AFP
Bandaríski námsmaðurinn Otto Warmbier, sem var sleppt úr haldi norður-kóreskra stjórnvalda í síðustu viku, eftir að hafa verið dæmdur í fimmtán ára nauðungarvinnu, er látinn. Hann var 22 ára gamall.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins. Warmbier hafði verið í dái síðan í mars á síðasta ári, en læknar hans sögðu frá því að hann hafi hlotið alvarlegan heilaskaða í haldi Norður-Kóreumanna.

Yfirvöld í Norður-Kóreu höfðu sagt að hann hefði fengið botúlíneitrun. Læknar Warmbier sögðust ekki hafa fundið nein merki um umrædda botúlíneitrun heldur hafi ástand hans verið eitthvað sem skapist með viðvarandi súrefnisskorti og skorti á blóðflæði til heilans.

„Það hryggir okkur að greina frá því að sonur okkar, Otto Warmbier, hefur lokið ferð sinni heim. Otto lést í dag klukkan 14:20 í faðmi fjölskyldunnar,“ segir í tilkynningu frá Warmbier fjölskyldunni.

Warmbier var handtekinn og sakaður um að stela áróðursskilti á hóteli sínu þegar hann heimsótti landið í janúar 2016. Skömmu eftir að Warmbier var handtekinn birtist hann í viðtali á ríkismiðli Norður-Kóreu þar sem hann játaði brot sitt og sagði að kirkjusöfnuður hans í Bandaríkjunum hefði beðið hann um að koma heim með minjagrip. 




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×