Fótbolti

Ronaldo eftirsóttur í Kína en nýr 100 prósent skattur flækir málið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo verður alltaf dýr en svakalega dýr í Kína.
Cristiano Ronaldo verður alltaf dýr en svakalega dýr í Kína. vísir/getty
Cristiano Ronaldo er sagður á útleið frá Real Madrid en hann vill komast frá Spáni vegna ákæru um skattalagabrot. Ronaldo hefur verið ákærður fyrir að stinga 1,6 milljarði króna undan skatti og vill burt.

Eins og greint var frá í morgun er Ronaldo sagður áhugasamur um endurkomu til Manchester United en frönsku ríkisbubbarnir í Paris Saint-Germain eru líka tilbúnir að gera nánast hvað sem er að til að landa ríkjandi besta fótboltamanni heims.

Liðin í kínversku ofurdeildinni eru einnig mjög spennt fyrir því að fá Ronaldo í sínar raðir, að því fram kemur í frétt Sky Sports í morgun. Sumarglugginn verður opnaður þar á mánudaginn og er opinn í tæpan mánuð.

Kínversku félögin eru moldrík og hafa verið að kaupa til sín menn fyrir ævintýralegar upphæðir og borga þeim annað eins. Nú eru samt breyttar forsendur í Kína.

Kínverska knattspyrnusambandið hefur nefnilega svo stórar áhyggjur af þessum kaupum liðanna í ofurdeildinni að það er búið að skattleggja markaðinn þar í landi. Það hefur svo miklar áhyggjur af því að ungir kínverskir fótboltamenn fái ekki tækifæri að það greip í taumana.

Til að sporna við þessum svakalegu kaupum hefur verið lagður 100 prósent skattur á öll kaup yfir 45 milljónum jena eða fimm miljónum punda (646 milljónir króna). Félag sem borgar fimm milljónir punda eða meira fyrir leikmann þarf að borga sömu upphæð í pott sem fer í það að þróa unga kínverska leikmenn.

Ætli eitthvað félag til dæmis að borga 100 milljónir punda fyrir Cristiano Ronaldo mun hann í raun og veru kosta viðkomandi félag 200 milljónir punda og þá á eftir að borga honum laun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×