Innlent

Sigmundur Davíð vill að Evrópuráðið biðji Framsóknarflokkinn afsökunar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ókátur vegna skýrslu Evrópuráðsins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er ókátur vegna skýrslu Evrópuráðsins. Vísir/Ernir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur lagt til að starfandi framkvæmdastjórn flokks síns fari fram á leiðréttingu og afsökunarbeiðni frá Evrópuráðinu vegna skýrslu nefndar ráðsins gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) um Ísland.

Í skýrslunni er því meðal annars haldið fram að í sveitarstjórnarkosningum ársins 2014 hafi Framsóknarflokkurinn gert andstöðu við mosku og múslima að sínum helstu baráttumálum. Kosningabaráttan hafi einkennst af æstri orðræðu gegn múslimum.

Í pistli sínum á Facebook skrifaði Sigmundur að vel hafi verið tekið í tillöguna. „Það hlýtur að vera óásættanlegt fyrir Framsóknarflokkinn að þúsundir saklausra flokksmanna séu sakaðir um „hatursorðræðu“ í alþjóðlegri skýrslu,“ skrifar hann jafnframt.

Þá skrifar Sigmundur að svo virðist sem heimildir skýrsluhöfunda virðist eingöngu byggjast á slúðri og skrifum hatursmanna flokksins í dreifibréfi.

„Greinargerðin er furðulegt fyrirbæri. Einstaklega illa unnin og illa skrifuð. Ólíklegt er að nemandi í framhaldsskóla kæmist upp með sambærileg vinnubrögð við ritgerðarskrif,“ skrifar Sigmundur.

Þá skrifar Sigmundur að ef rétt reynist að einhverjir í íslenska stjórnkerfinu eða borgarstjórn hafi lagt blessun sína yfir skýrsluna sé það alvarlegt mál sem sé ekki með nokkru móti hægt að láta óátalið.

Nefndin sjálf skrifar Sigmundur að sé samsett af einum fulltrúa hvers aðildarríkis Evrópuráðsins.

„Allt virðist það vera fólk með sömu pólitíska sýn á málaflokkinn.“

Skýrslur hennar virðist svo unnar að nokkrir nefndarmanna fari til eins lands í einu, „spjalli við heimamenn sem hafa sömu sýn á hlutina og nefndarmennirnir sjálfir og skrifi svo skýrslu upp úr hvaða sneplum sem eða slúðri sem dugar til að réttlæta fordóma nefndarmanna“.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×