Innlent

Mörg hundruð milljóna tjón vegna raka og myglu

Kostnaður vegna myglu hleypur á hundruðum milljóna. fréttablaðið/Pjetur
Kostnaður vegna myglu hleypur á hundruðum milljóna. fréttablaðið/Pjetur
Sveitarfélagið Langanesbyggð hefur ákveðið að byggja nýjan leikskóla á Þórshöfn. Samkvæmt ástandsskoðun verkfræðistofunnar Eflu er núverandi húsakostur skólans í mjög lélegu ástandi og mikið um myglu.

„Við lentum nú í því í fyrra að þurfa að endurbyggja allan grunnskólann út af myglu og rakaskemmdum,“ segir Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð, og bætir við: „Svo erum við með ónýtt íþróttahús sem kostar 100 milljónir að laga.“ Verkefnið hefur ekki verið kostnaðarmetið en Elías skýtur á að kostnaður við nýbygginguna verði að lágmarki 200 milljónir.

Elías Pétursson, sveitarstjóri í Langanesbyggð.vísir/gva
„Ég segi ekki að það sé auðvelt að fá 200 milljóna verkefni eftir þetta 160 milljóna króna vesen með grunnskólann en á sama tíma þá er þetta nú ekki sérlega óvænt,“ segir Elías.

Aðspurður segir Elías sveitarfélagið þó standa ágætlega, „en það má ekki mikið klikka í 500 manna sveitarfélagi ef við erum að tala um framkvæmdir upp á 500 milljónir á örfáum árum.“ Aðspurður segir Elías fyrst og fremst lélegu viðhaldi um að kenna.

Nokkur kergja virðist hlaupin í myglumál sveitarfélagsins. Í bókun sem minnihlutinn lagði fram á fundi sveitarstjórnar 31. ágúst segir meðal annars að hvorki leikskólastjórinn né minnihlutinn hafi fengið niðurstöður ástandsskoðana, þegar þær lágu fyrir í vor. Börn hafi verið í húsinu allan júnímánuð. Eftir sumarfrí virðist myglan hafa farið að spyrjast um bæinn og foreldrar farnir að spyrja hvort mygla væri í húsnæðinu. Starfsmenn leikskólans byrjuðu einnig að kvarta undan einkennum þegar þeir sneru úr sumarfríi. Þá fyrst fékk leikskólastjórinn niðurstöður ástandsskoðana sem meirihlutinn hafði haft undir höndum í tvo og hálfan mánuð.

Á fyrrgreindum fundi var samþykkt tillaga minnihlutans um að „Sylgja, sérfræðingur í myglu, verði fengin strax til að meta nánar ástand húsnæðis leikskólans og í framhaldinu verði farið í nauðsynlegar úrbætur eða breytingar á skólahaldi til þess að tryggja heilsu og öryggi barna og starfsfólks.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×