Fótbolti

Oscar byrjaður að láta til sín taka í Kína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Oscar fékk höfðinglegar móttökur við komuna til Shanghai.
Oscar fékk höfðinglegar móttökur við komuna til Shanghai. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Oscar skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Shanghai SIPG í Kína en það gerði hann sem varamaður í æfingaleik.

Shanghai var að spila við Al Batin frá Sádí-Arabíu í Doha og kom Oscar inn á þegar staðan var markalaus. Hann kom sínu liði yfir skömmu síðar og átti svo stóran þátt í öðru marki í leiknum.

„Ég náði bara að æfa í tvo daga með liðinu og þetta var fyrsti leikurinn minn,“ sagði Oscar eftir leikinn en mikið var fjallað um félagaskipti hans enda varð hann með þeim einn launahæsti leikmaður heims.

Shanghai SIPG greiddi Chelsea 60 milljónir punda, 8,3 milljarða króna, fyrir Oscar og borgar honum 2,7 milljarða í árslaun.

Portúgalinn Andre Villas-Boas er þjálfari liðsins en hann var síðast stjóri Zenit St. Pétursborg.

Auk Oscar er einn annar Brasilíumaður á mála hjá Shanghai SPIG - Hulk sem lék undir stjórn Villas-Boas hjá Zenit. Þá er talið líklegt að portúgalski varnarmaðurinn Ricardo Carvalho, fyrrum leikmaður Chelsea, sé á leið til sama félags.


Tengdar fréttir

Skiptir út ítalska draumnum fyrir kínverska gullið

Belgíski landsliðsmaðurinn Alex Witsel virðist ætla að fylgja gullgrafaræðinu og semja við lið í kínversku deildinni í stað þess að semja við ítölsku meistarana í Juventus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×