Skoðun

Besta afmælisgjöfin

Gréta Ingþórsdóttir skrifar
Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna, SKB, fagnaði 25 ára afmæli á nýliðnu ári.

Umtalsverðar framfarir hafa orðið í meðferð barna með alvarlega sjúkdóma á þessum aldarfjórðungi og aðbúnaður á Íslandi hefur gjörbreyst frá því að aðeins mátti heimsækja börn í sérstökum heimsóknartímum yfir í sérhannaðan barnaspítala þar sem foreldrar geta dvalið með börnum sínum meðan á innlögn stendur.

Stöðugt er verið að þróa meðferðir, þannig að þær geri sem mest gagn og sem minnstan skaða og hafa lífslíkur aukist verulega samfara því.

Eftir því sem fleiri lifa af krabbameinsmeðferð eykst þörfin fyrir eftirfylgd með þeim einstaklingum. Það hefur enda verið eitt helsta baráttumál forystumanna Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna mörg undanfarin ár að síðbúnum afleiðingum krabbameina verði sinnt betur og markvissar. Fyrir nokkrum misserum tók málið að þokast í rétta átt þegar samkomulag náðist á milli Kvenna- og barnasviðs LSH og SKB um stofnun sérstakrar göngudeildar um síðbúnar afleiðingar á Barnaspítala Hringsins. SKB hafði ákveðið að leggja verkefninu til rekstrarfé fyrstu árin og var starfsmaður ráðinn til að undirbúa opnun deildarinnar.

Mjög var vandað til undirbúningsins, ferðir farnar til að læra af því sem vel er gert í öðrum löndum, spurningalistar samdir og þeir lagðir fyrir að fengnu leyfi Vísindasiðanefndar. Einstaklingunum, sem kallaðir verða til viðtals, var raðað eftir áhættumati, þ.e. þeir fyrst kallaðir inn sem taldir eru vera í mesti áhættu á að glíma við alvarlegar síðbúnar afleiðingar af völdum krabbameinsmeðferðar. Síðbúnar afleiðingar geta verið líkamlegar, svo sem ófrjósemi, skert líffærastarfsemi, heyrnarskerðing, tannskemmdir og hármissir; andlegar, svo sem kvíði, þunglyndi og einbeitingarleysi; auk þess sem sumir hafa lent í mikilli félagslegri einangrun.

Nú hafa fyrstu einstaklingarnir verið kallaðir til viðtals á deildinni og er óhætt að segja að starfsemi hennar sé besta afmælisgjöf sem félagsmenn í SKB hefðu getað hugsað sér og binda þeir miklar vonir við starfsemi hennar.




Skoðun

Sjá meira


×