Innlent

Fjórtán ára hælisleitandi sá sem leitaði á börnin í strætisvagninum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Pilturinn er grunaður um að hafa króað jafnöldru sína af í strætisvagni og leitað á hana.
Pilturinn er grunaður um að hafa króað jafnöldru sína af í strætisvagni og leitað á hana. vísir/gva
Pilturinn sem grunaður er um að hafa áreitt unglinga í strætisvagni í Reykjanesbæ síðdegis í gær er fjórtán ára hælisleitandi. Hann er sagður hafa króað stúlku af í vagninum og leitað á hana.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Greint var frá málinu í Víkurfréttum í gær en á Facebook-hópum íbúa í Reykjanesbæ var sagt frá því að um hafi verið að ræða nokkra erlenda karlmenn sem hafi reynt að kyssa og þukla á börnum og unglingum.

Málið hefur vakið mikinn óhug í Reykjanesbæ og hafa foreldrar lýst því yfir að þeir muni fjölmenna í strætisvagna í dag til að líta eftir börnunum.

Lögreglan segir í tilkynningu að meintur gerandi sé jafnaldri stúlkunnar. Hann hafi verið í vagninum ásamt öðrum dreng á svipuðum aldri en þeir eru sagðir í sameiningu króað stúlkuna af í sæti sínu en aðeins annar áreitt hana. Þá mun drengurinn hafa slegið til og kastað flösku í dreng sem hafði afskipti af honum vegna málsins.

Drengurinn var færður á lögreglustöð þar sem rætt var við hann að fulltrúa barnaverndarnefndar viðstöddum.

Þá hefur lögreglu borist upplýsingar um að á mánudag hefði hinn drengurinn, sá sem ekki hafði sig í frammi í þessu tilviki, viðhaft svipaða hegðun gagnvart annarri stúlku.

Þar sem drengirnir eru börn og ósakhæfir vegna aldurs vegður ekki aðhafst frekar í málum þeirra af hálfu lögreglu. Þeir voru hælisleitendur hér á landi en fóru af landi brott í nótt.

Lögregla hefur ekki viljað tjá sig um málið þegar eftir því hefur verið leitað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×