Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ritstjórn skrifar
Verjandi mannsins, sem grunaður var um að hafa ráðið Birnu Brjánsdóttur bana en er nú laus úr haldi, segir einangrun og málið í heild hafa reynst manninum erfitt, en rætt verður við verjandann í fréttum Stöðvar tvö klukkan hálf sjö. Maðurinn sé nú að vinna úr sínum málum á Grænlandi með aðstoð fjölskyldu og fagaðila.

Við hittum líka fimm manna fjölskyldu sem flutti frá Reykjavík og norður í Fnjóskadal til að stofna þar textílverkstæði, veitingahús og húsdýragarð, en fjölskyldur eru þegar farnar að flykkjast í dalinn vegna Vaðlaheiðarganganna, þótt enn sé langt í að þau verði opnuð.

Þá er ljóst að nýr formaður verður kjörinn á ársþingi KSÍ í Vestmannaeyjum á laugardag. Björn Einarsson, formaður Víkings og forstjóri TVG-Zimsen, og Guðni Bergsson, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu og atvinnumaður, bítast um formannssætið.

Nokkur styr hefur verið um formannskjörið, en núverandi formaður KSÍ, Geir Þorsteinsson, dró framboð sitt tilbaka á dögunum eftir að hafa setið í formannstól undanfarinn áratug. Þá lýsti Björn því yfir að hann hyggðist ekki þiggja laun fyrir formannsstarfið – nokkuð sem mótframbjóðandinn, Guðni Bergsson, telur hæpið í ljósi þess að um sé að ræða nokkuð mikla ábyrgð sem formaður KSÍ tekur að sér hverju sinni. Laun formanns í dag eru nærri því ein og hálf milljón króna á mánuði.

Þeir Björn og Guðni mæta í kappræður sem Hörður Magnússon stýrir í beinni útsendingu, strax að loknum íþróttafréttum.

Kvöldfréttir Stöðvar 2 hefjast að vanda á slaginu 18.30




Fleiri fréttir

Sjá meira


×