Innlent

Samgönguráðherra lætur rannsaka öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar segir samgönguráðherra.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar segir samgönguráðherra. vísir/vilhelm
Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur ráðið starfsmann í samgönguráðuneytið til þess að rannsaka sérstaklega öryggishlutverk Reykjavíkurflugvallar. Hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíðarstaðsetningu flugvallarins en segist tilbúinn til þess að skoða það að opna neyðarbrautina svonefndu aftur.

Þetta kom fram í máli Jóns við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi í dag. Jón sagði að í Rögnuskýrslunni svokölluðu, um framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar eða innanlandsflugsins, hafi ekki verið tekið tillit til þess öryggishlutverks sem Reykjavíkurflugvöllur hafi að gegna gagnvart landsmönnum. Því hafi þessi ákvörðun verið tekin.

„Ég hef því ráðið tímabundið starfsmann í samgönguráðuneytið sem er sérstaklega að fara yfir þetta öryggishlutverk vallarins og þá í breiðum skilningi, ekki eingöngu gagnvart sjúkraflugi heldur bara almennt, öryggishlutverki og þá almannavarnahlutverki vallarins líka,“ sagði Jón.

Aðspurður sagði hann enga ákvörðun hafa verið tekna um hugsanlegan flutning á starfsemi flugvallarins. Meðan slík ákvörðun hafi ekki verið tekin verði miðstöð innanlandsflugs á Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýri.

„Hvað varðar hina löngu framtíð í þeim efnum verður bara að koma í ljós. Það er mörgum spurningum þar ósvarað varðandi bæði staðsetningar og kostnað við byggingu á mögulega nýjum velli sem gæti hýst þessa þjónustu. Ég hef því lagt á það mikla áherslu og mun leggja á það áherslu í viðræðum mínum við yfirvöld í borginni að við getum hafið sem fyrst framkvæmdir við uppbyggingu á þjónustumiðstöð fyrir starfsmenn og farþega á Reykjavíkurflugvelli,“ sagði Jón Gunnarsson á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×