Erlent

Rúmenar mótmæla enn þrátt fyrir afturköllun umdeildrar tilskipunar

atli ísleifsson skrifar
Mótmælin hafa nú staðið síðan á þriðjudag og eru þau mestu í landinu frá falli kommúnistastjórnarinnar árið 1989.
Mótmælin hafa nú staðið síðan á þriðjudag og eru þau mestu í landinu frá falli kommúnistastjórnarinnar árið 1989. Vísir/AFP
Í kringum hálf milljón manna komu saman á götum rúmenskra bæja og borga í gærkvöldi til að mótmæla stjórnvöldum, þrátt fyrir að umdeild tilskipun sem myndi forða fjölda stjórnmálamanna frá ákæru um spillingarbrot hafi verið afturkölluð.

Vinstristjórn landsins afturkallaði tilskipunina á neyðarfundi í gær. Rúmenía er samkvæmt flestum mælikvörðum það aðildarríki Evrópusambandsins þar sem spilling er hvað mest, en framkvæmdastjórn sambandsins hefur fylgst grannt með gangi mála.

BBC segir frá því að rúmenskur almenningur virðist hafa fengið sig fullsaddan og hefur stjórnin nú kynnt breytta tilskipun sem til stendur að leggja fyrir þingið.

Margir hafa krafist þess að forsætisráðherrann Sorin Grindeanu segi af sér. Mótmælin hafa nú staðið síðan á þriðjudag og eru þau mestu í landinu frá falli kommúnistastjórnarinnar árið 1989.

Samkvæmt upphaflegu tilskipuninni hefði ekki verið hægt að ákæra embættis- og stjórnmálamenn fyrir spillingarbrot þar sem upphæðir næmu innan við 44 þúsund evrur, um 5,4 milljónir króna.

Hafa mótmælendur og andstæðingar stjórnarinnar litið á tilskipunina sem tilraun stjórnarinnar til að forða ýmsum stjórnarliðum frá ákæru.

Einn þeirra sem hefði sloppið við ákæru hefði verið Liviu Dragnea, leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins sem leiðir ríkisstjórn landsins. Hann er sakaður um að hafa dregið sér fé úr opinberum sjóðum fyrir um 24 þúsund evrur, um þrjár milljónir króna.

Stjórnlagadómstóll mun síðar í vikunni skera úr um hvort að upphaflega tilskipunin hefði staðist stjórnarskrá landsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×